„Við erum hrikalega spenntir eins og fyrir fyrri leiki okkar í keppninni. Það er mjög skemmtilegt að fá tækifæri til þess að vera með í Evrópubikarkeppninni, berjast við nýja andstæðinga og velta nýjum flötum fyrir sér. Þátttakan brýtur tímabilið upp og býr til eftirvæntingu á meðal strákanna,“ segir Ásgeir Örn Hallgrímsson þjálfari Hauka sem mætir í dag slóvenska liðinu RK Jeruzalem Ormoz í fyrri umferð Evrópubikarkeppni karla í handknattleik á Ásvöllum klukkan 17.
RK Jeruzalem frá Ormoz er ekki óþekkt íslensku áhugafólki um handknattleik vegna þess að liðið mætti Selfossi í 2. umferð Evrópubikarkeppni karla fyrir þremur árum. Fyrri viðureigninni lauk með jafntefli á Selfossi, 31:31, 16. október 2021. Selfoss tapaði síðari leiknum ytra, 28:22, viku eftir viðureignina í Sethöllinni.
Þurfum toppleik
„Ég reikna bara með spennandi og skemmtilegum leik,“ segir Ásgeir Örn ennfremur en Haukar hafa farið í gegnum tvær umferðir í keppninni og m.a. farið til Aserbaísjan. „Við stefnum á að eiga algjöran toppleik þar sem um er að ræða mjög gott lið sem við erum að fara að mæta,“ bætir Ásgeir Örn við sem telur lið RK Jeruzalem Ormoz vera talsvert öflugra en staða þess í deildinni heimafyrir segir til um.
Stórir og sterkir
„Leikmenn eru stórir og sterkir og líkamlega vel á sig komnir. Auk þess eru þeir taktískt öflugir eftir því sem ég fæ séð á því efni sem ég hef verið að vinna úr,“ segir Ásgeir Örn sem leggur áherslu á að ná góðum úrslitum á heimvelli fyrir síðari viðureignina eftir viku í Ormoz í Slóveníu.
RK Jeruzalem frá Ormoz vann Granitas-Karys frá Litáen með samanlagt 13 marka mun í fyrstu umferð Evrópubikarkeppninnar. Í annarri umferð, þeirri sömu og Haukar lögðu HC Cocks frá Finnlandi, vann RK Jeruzalem bosníska liðið RK Borac með níu mörkum samanlagt. Í þriðju umferð vann RK Jeruzalem lið Mistra frá Eistlandi með 13 marka mun.
Jafnir möguleikar
„Vissulega getur verið erfitt að meta andstæðing sem maður þekkir eingöngu af upptökum. En af þeim ályktunum sem ég dreg þá tel ég möguleika okkar vera jafna. Við verðum að minnsta að eiga toppleiki til þess að slá þá út,“ segir Ásgeir Örn Hallgrímsson þjálfari Hauka.
Viðureign Hauka og RK Jeruzalem Ormoz hefst á Ásvöllum klukkan 17 í dag.
RK Jeruzalem frá Ormoz situr í 10. sæti af 12 liðum í efstu deild handknattleiks karla með 11 stig 19 leiki, fimm stigrar, eitt jafntefli og 13 töp.
Kvennalið Hauka tekur einnig þátt í Evrópubikarkeppninni í dag. Leikið verður í Tékklandi:
Haukar mæta Hazena Kynzvart í Cheb á morgun