- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Ég trúi þessu hreinlega ekki“

Leikmenn ÍR ærðust af kæti þegar flautað var til leiksloka í gærkvöld og skal engan undra. Mynd/sunnlenska.is/Guðmundur Karl
- Auglýsing -

„Þetta er hreint ótrúlegt. Ég trúi þessu hreinlega ekki. Ég er að fara spila í Olísdeildinni aftur,“ sagði Karen Tinna Demian leikmaður ÍR eldhress í samtali við handbolta.is í Sethöllinni á Selfossi í gær eftir að ÍR hafði unnið Selfoss í oddaleik liðanna um sæti í Olísdeild kvenna í handknattleik, 30:27. ÍR tekur þar með sæti í Olísdeild kvenna í haust en Selfoss fellur í Grill 66-deildina eftir eins árs veru í Olísdeildinni.

Sigur ÍR-liðsins í umspilinu kom flestum á óvart enda hefur það nær oftast gerst á síðustu árum að liðið sem leikur í Olísdeildinni hefur unnið umspilið, yfirleitt nokkuð örugglega.

Vildum sýna að við erum góðar

„Við höfðum trú að því frá upphafi að við gætum veitt Selfossliðinu keppni í úrsliteinvíginu. Hinsvegar höfðu ekki margir leikmenn ÍR leikið áður gegn nokkru öðru liði úr Olísdeildinni. Við vildum bara sýna að við erum góðar og gera okkar besta. Sjá til hverju það gæti skilað okkur. Niðurstaðan liggur fyrir,“ sagði Karen Tinna þar sem hún tók sér stutt hlé frá sigurdansinum með samherjum sínum og stuðningsmönnum á fjölum Sethallarinnar á Selfossi í gærkvöld.

Frá byrjun höfðum við engu að tapa

„Við höfðum engu að tapa í þessu einvígi. Selfossliðið var með bakið upp við vegg frá byrjun. Þær voru í því hlutverki að verja stöðu sína í Olísdeildinni. Okkar var hinsvegar að njóta og hafa gaman að því að spila hvernig sem gengi. Heiðurinn var okkar að fá þetta tækifæri hvernig sem færi,“ sagði Karen Tinna og segja má að leikgleðin og samstaðan hafi fleytt ÍR-ingum gegn súrt og sætt í fimm leikja einvígi.

Karen Tinna Demian handknattleikskona hjá ÍR. Mynd/ÍR

Karen Tinna er ein fárra leikmanna ÍR-liðsins sem hefur leikið í Olísdeildinni en hún var um skeið með Stjörnunni en kom aftur heim til ÍR fyrir tveimur árum.

Sýndum hvað í okkur býr

„Við sýndum fram á það í tveimur fyrstu leikjunum að við getum alveg keppt við Selfossliðið. Eftir tap í leik þrjú og fjögur þá mættum við hingað í kvöld til þess að snúa við blaðinu og sýna hvað í okkur virkilega býr, gefa allt í leikinn og sjá til hvað það gæti skilað okkur langt,“ sagði Karen Tinna sem skoraði 11 mörk í leiknum í gær og alls 46 mörk í leikjunum fimm við Selfoss.

Breyttar áherslur skiluðu sér

Frábær byrjun í leiknum í gær þegar ÍR skoraði fjögur af fyrstu fimm mörkunum á fyrstu þremur mínútunum veitti ÍR-ingum byr í seglin.

„Við breyttum aðeins áherslum í varnarleiknum fyrir leikinn í kvöld. Breytingarnar skiluðu sér svo sannarlega. Með þeim tókst okkur að loka á línuspil Selfossliðsins sem hafði valdið okkur áhyggjum í síðustu tveimur viðureignum. Um leið fengum við hraðaupphlaup. Ofan á annað þá var meiri yfirvegun í uppstilltum sóknarleik okkar sem varð þess valdandi að við töpuðum boltanum sjaldnar en í síðustu leikjum.

Myndskeið: Sigurgleði ÍR-inga í Sethöllinni í kvöld

Allt gekk upp þrátt fyrir áföll

Það má segja að mest allt hafi gengið upp hjá okkur í þessum leik þrátt fyrir að missa út leikmenn, þar á meðal Sollu [Sólveig Lára Kjærnested] þjálfara sem sleit hásin í síðasta leik.“

Karen Tinna segir að uppistaða ÍR-liðsins sé skipuð leikmönnum sem eru fæddar 2004 og 2005 og eru enn í þriðja flokki.

Mikil reynsla fyrir þær yngri

„Á heildina litið var þetta karaktersigur hjá okkur. Ungu stelpurnar hafa öðlast mjög mikla reynslu við að spila alla þessa erfiðu leiki með nokkurra daga millibili. Fyrst voru þrír leikir við Gróttu í undanúrslitum og síðan þessir fimm leikir við Selfoss. Þetta er hreinlega geggjað,“ sagði Karen Tinna Demian leikmaður ÍR sem skiljanlega var eitt bros þegar handbolti.is hitti hana í stórum hópi stuðningsmanna ÍR-liðsins sem fylgdu liðinu austur á Selfoss í gærkvöld og studdu með ráðum og dáð frá upphafi til enda.

Handbolti.is fygldist með öllum fimm leikjum ÍR og Selfoss í textalýsingu og lét sig að sjálfsögðu ekki vanta á oddaleikinn í Sethöllinni í gærkvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -