Ekkert verður í bili af leikjum úkraínska meistaraliðsins HC Motor gegn PSG 1. mars, á móti Barcelona 3. mars og FC Porto 10. mars. Þeim hefur verið frestað um ótiltekinn tíma. Forsvarsmenn EHF ætla að funda um málið á næstu dögum.
Þetta kemur fram í tilkynningu Handknattleikssambands Evrópu, EHF, í gærkvöld. Vegna ástandsins sem ríkir í Úkraínu eftir innrás rússneska hersins í landið liggur ljóst fyrir að lið HC Motor getur ekki mætt til leikjanna vegna stríðsástands í heimalandinu.
Áður en Rússar réðust inn í Úkraínu hafði EHF flutt tvo fyrstu leikina sem nefndir eru að ofan frá Úkraínu til Presov í Slóvakíu. Þriðji leikurinn, 10. mars, á að fara fram í Porto.
Gintaras Savukynas er þjálfari HC Motor. Roland Eradze er hans hægri hönd. Síðast þegar fréttist af þeim félögum voru þeir á leiðinni frá Úkraínu að landamærum Slóvakíu.
Gegn gildum Nantes að mæta rússnesku liði
Einnig hefur viðureign franska liðsins HBC Nantes og Medvedi sem fram átti að fara í Evrópudeild karla í handknattleik á þriðjudaginn verið frestað. Forsvarsmenn HBC Nantes kröfðust þess að leikurinn yrði saltaður. Þeir segja það vera gegn gildum félagsins að mæta rússnesku handknattleiksliði vegna framferðis Rússa gagnvart Úkraínu og íbúum landsins.
EFH féllst umsviflaust á ósk franska félagsins.