Handknattleikssamband Evrópu, EHF, hefur sektað rekstrarfélag þýska handknattleiksliðsins HB Ludwigsburg um 25.000 evrur fyrir að gefa upp villandi upplýsingar um fjárhagsstöðu sína þegar félagið sótti um keppnisrétt í Meistaradeild Evrópu í kvennaflokki í vor. Tveimur mánuðum síðar var félagið gjaldþrota og ljóst að fjárhagsáætlun félagsins var byggð á sandi.
Auk sektarinnar, sem er jafnvirði 3,2 milljóna kr, hefur liðið verið sett í tveggja ára bann frá þátttöku á Evrópumótum félagsliða. Ósennilegt er að á bannið muni reyna þar sem Ludwigsburg á ekki lengur lið í tveimur efstu deildum þýska handknattleiksins og er þar af leiðandi víðsfjarri að vinna sér inn keppnisrétt á Evrópumótum félagsliða.
Félagið er sagt hafa með umsókn sinni, sem byggð var á sandi, hafa valdið EHF skaða, eða réttara sagt skaða ímynd Meistaradeildar kvenna. Í umsókninni kom fram að félagið gæti staðið undir fjárhagsskuldbingum sínum á komandi leiktíð.
Norska liðið Sola tók sæti Ludwigsburg þremur vikum áður en fyrsta umferðin fór fram. Sola var skráð til leiks í Evrópudeildina sem þýddi einnig uppstokkun á keppni þeirra sem áður hafði verið skipulögð í þaula.



