Handknattleikssamband Evrópu, EHF, hefur staðfest að árs keppnisbann sem slóvenski handknattleiksmaðurinn Marko Bezjak hlaut í vor hjá króatíska handknattleikssambandinu tekur yfir öll mót sem eru undir hatti EHF, ekki aðeins þau sem eru innan Króatíu. Bezjak getur þar með orðið gjaldgengur með félagsliðum utan Króatíu nú þegar en þó ekki tekið þátt í Evrópukeppni félagsliða né með landsliðinu.
Erlangen í Þýskalandi samdi í sumar við Bezjak. Félagið getur þar með teflt fram hinum fertuga handknattleiksmanni fram í leikjum þýsku 1. deildarinnar og í bikarkeppninni. Bezjak er á hinn bóginn ekki gjaldgengur með liðinu í Evrópukeppni félagsliða í bili. Ekki mun reyna á það vegna þess að Erlangen er ekki með á þeim vettvangi í vetur.
Bezjak réðist á eftirlitsmann og hrinti honum eftir að upp úr sauð í viðureign RK Nexe og Zagreb í króatísku úrvalsdeildinni 7. apríl. Myndskeið af atvikinu er að finna hér.
Fleiri máttu súpa seyðið af uppnámi sem varð í leiknum. Veselin Vujovic þáverandi þjálfari RK Nexe fékk þriggja mánaða bann og var sagt upp störfum í kjölfarið og Andraž Velkavrh var úrskurðaður í fjögurra leikja bann.