- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eiga ekki upp á pallborðið

Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæma á EM karla strax á fimmtudag. Mynd/Jóhannes Long
- Auglýsing -

Íslenskir handknattleiksdómarar virðast ekki vera hátt skrifaðir hjá Alþjóða handknattleikssambandinu, IHF, ef marka má lista sem sambandið gaf út á dögunum og gildir fyrir komandi keppnistímabil. Á listanum er að finna nöfn 125 dómara frá 41 landi.  Tveir þriðju hluti hópsins er skipaður evrópskum dómurum, þar á meðal frá grannlöndum okkar, Danmörku, Noregi og Svíþjóð.

Tólf kvennapör eru á listanum en kvenfólk hefur verið að ryðja sér í auknum mæli til rúms í stétt dómara á síðustu árum. M.a. hafa konur dæmt á stórmótum karla sem hefði þótt tíðindi fyrir örfáum árum.

Dómarar sem eru á lista IHF dæma leiki á mótum á vegum sambandsins á næsta keppnistímabili. Þar á meðal verða dómarar valdir af þessum lista til þess að dæma leiki á heimsmeistaramóti karla í Egyptalandi í janúar og í forkeppni Ólymíuleikanna næsta vor. Líklegt má telja að rjómi þessa hóps verði valinn til að dæma á Ólympíuleikunum sem fram eiga að fara í Tókíó næsta sumar.

Sjóaðasta dómarapar Íslands, Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson, hafa ekki verið á lista IHF um árabil eða allt frá því þeir dæmdu á heimsmeistaramóti kvenna í Danmörku fyrir fimm árum. Þá voru þeir sendir heim snemma móts eftir að mistök voru gerð við úrskurð myndbandsdóms vegna marks sem skorað var í leik sem þeir dæmdu. Þeir fengu að súpa seyðið af mistökunum þótt þau hafi frekar skrifast á reikning þess sem sat við eftirlitsmyndavélina. Á þessum árum var myndbandstæknin ný af nálinni og reglur um notkun hennar ekki kominn í þann farveg sem nú er.

Anton og Jónas hafa hinsvegar ekki verið í skammakróknum á vegum Handknattleikssambands Evrópu, EHF. Á undanförnum árum hafa þeir dæmt um tug leikja á hverri leiktíð í Meistaradeild Evrópu, verið í tvígang dómarar í úrslitahelgi Meistaradeildar karla, dæmt stóra landsleiki. Síðast voru þeir í eldlínunni á EM karla í byrjun þessa árs.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -