„Við höfum verið í úrslitum síðustu fimm ár og alltaf á móti Fram að árinu í fyrra undanskildu þegar við mættum KA/Þór í úrslitum. Það er alltaf jafn gaman að leika til úrslita og hér með skora ég á Valsmenn að flykkjast á völlinnn í úrslitaleikjunum. Stelpurnar eiga það svo sannarlega skilið enda eru þær frábærir íþróttamenn,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans eftir að Valur tryggði sér sæti í úrslitum Íslandsmótsins í handknattleik kvenna eftir sigur á KA/Þór í undanúrslitum Olísdeildar í KA-heimilinu í dag, 30:28, í fjórðu viðureign liðanna.
„Stelpurnar eru bikarmeistarar, höfnuðu í öðru sæti í deildinni og hafa verið í úrslitum undanfarin fimm ár. Þær verðskulda veglegan og hressilegan stuðning. Valur á fjölmennan hóp stuðningsmanna sem hefur sýnt sig í úrslitaleikjunum í körfunni og hjá strákunum í handboltanum. Næst er að fjölmenna á leikina hjá Valsstelpunum,“ sagði Ágúst Þór ákveðinn.
Mikilvægt að byrja vel
Valur var með yfirhöndina frá upphafi til enda í fjórða leiknum við KA/Þór í dag. Heimaliðið náði aldrei að jafna metin og minnkaði muninn mesta niður í eitt mark, 21:20, þegar 12 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.
„Við byrjuðum mjög vel. Náðum að leika mjög góðan varnarleik og keyra mjög vel á KA-liðið. Fyrir vikið skoruðum við fjögur fyrstu mörk leiksins eftir hraðaupphlaup og mjög góða vörn. Þar með náðum við forystunni sem var mjög mikilvægt þar sem við byrjuðum leikina á undan frekar illa og lentum jafnvel langt undir,“ sagði Ágúst Þór.
Vissum að þær myndu þjarma að okkur
Undir lokin tókst KA/Þór aðeins að sauma að Valsliðinu og hleypa talsverðri spennu í viðureignina. Ágúst Þór sagðist aldrei hafa verið rólegur enda viti hann vel að KA/Þórsliðið sé öflugt og að það gefi aldrei eftir sinn hlut átakalaust.
„Það var alveg ljóst að KA/Þórsliðið myndi gera allt til þess að þjarma að okkur meðan eitthvað væri eftir af leiknum. Stelpunum tókst hins vegar að standast álagið. Þær héldu haus, léku af yfirvegun og skiluðu sér nær alltaf til baka í vörnina sem var afar mikilvægt.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá var þetta sanngjarn sigur,“ sagði Ágúst Þór sem var feginn að hafa náð að binda enda á einvígið í dag í stað þess að fara með rimmuna í oddaleik á mánudaginn. Ekki veitir af að fá hvern dag sem mögulegur er til þess að búa sig undir úrslitaleikina við Fram. Sá fyrsti verður á föstudagskvöldið á heimavelli Fram.
Munum gera okkar besta
„Nú fáum við nokkra daga til þess að hlaða rafhlöðurnar og búa okkur undir leiki við Framara. Okkar markmið er að mæta fersk til leiks í úrslitarimmuna og reyna að veita sterku Fram liði góða keppni. Við munum alltént gera okkar besta,“ sagði Ágúst Þór sem var á leiðinni í flug ásamt Valsliðinu frá Akureyrarflugvelli þegar handbolti.is sló á þráðinn.