- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eigi er enn sopið kálið þó að í ausuna sé komið

Valur stendur vel að vígi eftir átta mark sigur í fyrri leiknum við Baia Mare. Ljósmynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

Valur stendur vel að vígi eftir átta marka sigur á rúmenska liðinu Minaur Baia Mare, 36:28, í fyrri viðureign liðanna í undanúrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik karla í stórkostlegri stemningu N1-höllinnni á Hlíðarenda í kvöld að viðstöddum nærri 1.500 áhorfendum. Síðari viðureign liðanna verður í Baia Mare í norðurhluta Rúmeníu eftir viku.

Í ljósi reynslunnar af fyrri viðureignum íslenskra félagsliða við rúmensk í þessari keppni fyrir sex og sjö árum er óhætt að vitna í Þórðar sögu hreðu: eigi er enn sopið kálið þó að í ausuna sé komið.

Óneitanlega er staðan góð. Valsmenn verða hreinlega að spila til sigurs í síðari leiknum. Annað kemur ekki til greina og sjá svo hversu langt það leiðir liðið. Fullvíst er að rúmenska liðið á eftir að sýna aðrar hliðar á heimavelli eftir viku fyrir framan 2 – 3 þúsund áhorfendur.

Valsliðið lék reyndar mjög vel, jafnt í vörn sem sókn alla leikinn. Björgvin Páll Gústavsson var frábær í markinu. Reynsla hans skein í gegn frá upphafi leiksins til loka.

Valur var með fjögurra marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 18:14.

Mestur varð munurinn níu mörk í síðari hálfleik. Með smáheppni hefði forskot Vals getað verið 10 mörk þegar upp var staðið.
Rúmenska liðið réði lítt við hraða Valsliðsins. Hraðinn var lykillinn að þessum öfluga sigri.

Víst að önnur hlið mun sjást á leikmönnum Minaur Baia Mare í síðari leiknum þegar þeir verða fyrir framan sína stuðningsmenn. Þeir munu ekki gefast upp eins þeir sumir virtust gera í mótlætinu í kvöld. Meira verður örugglega um látbragð og fastan varnarleik en slíkir tilburðir sáust í kvöld.
Einu sinni urðu ungverskir dómarar leiksins að lesa einum leikmanni rúmenska liðsins pistilinn og segja honum að haga sér.

Mörk Vals: Benedikt Gunnar Óskarsson 6, Tjörvi Týr Gíslason 5, Ísak Gústafsson 4, Magnús Óli Magnússon 4, Alexander Petersson 4, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 3, Allan Norðberg 3, Agnar Smári Jónsson 2, Aron Dagur Pálsson 2, Björgvin Páll Gústavsson 2, Andri Finnsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 14, 33,3%.

Mörk Minaur Baia Mare: Stefan Vujic 7, Miklan Kotrc 5, Stevan Vijovic 4, Tudor Botea 3, Artem Kozakevych 3, Tomas Cip 3, Robert Nagy 1, Erik Leonard Pop 1, Viorel Fotache 1.
Varin skot: Barna Buzogany 6, 31,6% – Anton Terekhov 3, 14,2%.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -