Það tekur alltaf tíma að jafna sig eftir áföll. Það hafa íslenskir handknattleiksmenn fengið að kynnast í gegnum tíðina. Þeir þekkja vel hina gömlu setningu: „Eigi skal gráta Björn bónda, heldur safna liði og leita hefnda“. Ég gleymi aldrei áfallinu í heimsmeistarakeppninni í Kumamoto í Japan 1997, þegar Ungverjar stöðvuðu óvænt sigurgöngu Íslands í 8-liða úrslitum.
Ísland hafði farið taplaust í gegnum riðlakeppnina; unnið Japan, Júgóslavíu, Litháen og Sádi-Arabíu, en gert óvænt jafntefli við Alsír, 27:27.
Það var mikil stemning í landsliðsrútunni eftir hvern leik og leikmenn skemmtu sér með því að taka þátt í þjóðaríþrótt Japana; Karaókí! Söngur úr „íslensku söngvarútunni“ vakti athygli, hvert sem hún fór.
Hvenær ferð þú heim?
Ekki minnkaði stemningin, eftir að Norðmenn voru lagðir að velli í 16-liða úrslitum, 32:28, eftir að Norðmenn höfðu náð góðu forskoti í fyrri hálfleik, en „strákarnir okkar“ sneru taflinu við í síðari hálfleik og sendu Norðmenn heim. Einn norski blaðamaðurinn, sem var sigurviss og gerði góðlátlegt grín að mér, spurði mig í leikhléi; Hvenær ferð þú heim – í fyrramálið? Ég sá þann blaðamann ekki aftur í Kumamoto. Hann og aðrir norskir blaðamenn voru farnir af hótelinu, er ég mætti í morgunmat. Ég var í ljómandi stuði og borðaði grjónagrautinn með prjónum!
Ekki var kveikt á Karaókí-tækinu
Þá var komið að leik gegn Ungverjum, sem tapaðist óvænt 25:26 þrátt fyrir stórleik Julian Róberts Duranona, sem skoraði 9 mörk. Ungverjar komust í undanúrslit, en hlutskipti strákanna var að leika um 5. til 8. sætið. Það var ekki kveikt á Karaókí-tækinu eftir leikinn gegn Ungverjum, en aftur á móti var kveikt á því aftur eftir sigurleiki á Spánverjum (32:23) og Epyptum (23:20) og fimmta sæti tryggt; besti árangur Íslands á HM. Eftir sigurinn á Egyptum voru Bítlalög tekin og allt sett í botn!
Ungverjar töpuðu, 19:31, fyrir Svíum í undanúrslitum, en Svíar töpuðu fyrir Rússum í úrslitaleik, 21:23.
* Ísland lék níu leiki í Kumamoto, vann sjö, gerði eitt jafntefli og tapaði einum leik, gegn Ungverjum.
Endurtökum leikin!
Nú eru framundan fjórir erfiðir leikir sem fara fram í Köln; gegn Þýskalandi, Frakklandi, Króatíu og Austurríki. Strákarnir þekkja þýska liðið eins og fingurna á sér, þannig að mögueiki á sigri er góður. Þá verður tekið á Frökkum á laugardaginn og muna menn vel eftir leiknum gegn Frökkum í Magdeburg á HM í Þýskalandi, 2007. Stórkostlegur sigurleikur, 32:24, þar sem allir leikmenn Íslands léku af fingrum fram. Er ekki rétt að endurtaka leikinn? Leikið verður gegn Króötum á mánudaginn og Austurríkismönnum á miðvikudaginn kemur. Það er ekki langt síðan að Ísland vann tvo sigra á Austurríki; rétt fyrir EM.
Auf Wiedersehn!
Sigmundur Ó. Steinarsson.