„Ég er nokkuð ánægður með síðustu daga en við eigum enn nokkuð í land með að ná okkar besta fram sem er kannski ekki óeðlilegt. Við erum nýlega komnir af stað en að sama skapi verður að vinna hratt. Það verður fróðlegt að sjá okkur gegn Svíum,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla í handknattleik í samtali við handbolti.is.
Aron ekki með
Landsliðið hefur verið saman við æfingar í sex daga. Í fyrramálið fer liðið til Svíþjóðar þar sem það mætir bronsliði EM á síðasta ári, Svíum, í tveimur vináttuleikjum á fimmtudag og laugardag. Eins og kom fram fyrr í dag þá verður Aron Pálmarsson, fyrirliði, hvorki með í viðureignunum í Svíþjóð né í upphafsleikjum landsliðsins á HM í Zagreb gegn Grænhöfðeyingum, Kúbumönnum og Slóvenum, 16., 18. og 20. janúar vegna meiðsla.
Engar breytingar
Ekki verður kallaður inn leikmaður í stað Arons að sögn Snorra. „Eins og staðan er núna ætla ég ekki að gera neina breytingar,“ segir Snorri Steinn sem teflir fram 17 leikmönnum í viðureignunum sem fram fara í Kristianstad og í Malmö.
Eitthvað til að vinna út frá
„Það er eitt og annað sem hefur þurft að skoða og truflað undirbúninginn. Elvar Örn var meiddur en var með okkur á fullu á æfingu í gær. Aron er einnig meiddur og verður hugsanlega ekkert með fyrr en í milliriðlum á HM. Eins og staðan er í dag þá er það útgangspunktur sem er ágætt fyrir mig til þess að vinna út frá. Við munum leika við Svía og leikina þrjá í riðlakeppninni án Arons. Síðan verður eðlilega mjög gott að fá hann inn í liðið þegar á líður,“ segir Snorri Steinn sem þarf eðlilega að hugsa stöðuna upp á nýtt þegar Arons nýtur ekki við innan vallar.
Þróun í rétta átt
Snorri Steinn segir að búast megi við ýmiskonar frammistöðu í leikjunum við Svía en markmiðið verði hinsvegar að vera það að liðið taki framförum og að leikur þess þróist í rétta átt. Vélin sé að smyrjast jafn og þétt.
Engan æfingaleikjabrag!
„Við munum prófa okkur áfram með eitt og annað. Þar af leiðandi er viðbúið að sumt gangi upp en annað ekki. Ég vil sjá góða frammistöðu og að menn nálgist leikina af alvöru. Ef það verður of mikill æfingaleikjabragur viðureignunum mun það fara í taugarnar á mér,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik.
Nánar er rætt við Snorra Stein í myndskeiði hér rétt fyrir ofan.