„KA-menn höfðu fyrst samband við mig í nóvember eftir að ég sagði upp samningnum við Ribe-Esbjerg. Áhugi þeirra var strax mjög mikill og þeim tókst að að sannfæra mig með skemmtilegum pælingum varðandi klúbbinn, gildi hans og hversu gott væri að búa á Akureyri,“ sagði Ágúst Elí Björgvinsson markvörður sem verður leikmaður KA í upphafi nýs árs en upplýst var um komu hans til Akureyrar í gærkvöld.
Ágúst Elí sem er FH-ingur í húð og hár hefur undanfarin sjö ár leikið með félagsliðum í Svíþjóð og Danmörku, síðast hjá Ribe-Esbjerg hvar hann sagði upp samningi sínum um miðjan nóvember.
Sjá einnig: Ágúst Elí hefur samið við KA
Gott að flytja heim til Íslands
„Mér líst vel á þetta skref enda hefði ég aldrei stigið það að öðrum kosti. Þótt við séum ekki að flytja heim í Hafnarfjörð þá er gott að koma heim til Íslands,“ sagði Ágúst Elí sem kemur úr rótgrónni FH-fjölskyldu en þó er tenging við KA en afi hans, Ágúst Birgir Björnsson, betur þekktur sem Biggi Bjöss, þjálfaði KA um árabil í lok áttunda áratugarins og í byrjun þess níunda. Móðir Ágústs, Laufey, er að hluta til alin upp í Brekkunni.

Smá rómantík
„Eftir að opinberað var að ég gengi til liðs við KA hef ég fengið mörg skilaboð frá gallhörðum FH-ingum þar sem mér er bent á að KA sé eina félagið sem ég megi leika með á Íslandi að undanskildu FH. Það er smá rómantík í að fara í KA og feta í fótspor afa. Ég hitti marga eldri karla í KA-heimilinu í gærkvöld sem sögðu mér sögur af afa,“ sagði Ágúst Elí sem er 30 ára gamall.
Ágúst Elí Björgvinsson er 30 ára gamall. Hann lék með FH fram til ársins 2018 er hann gekk til liðs við IK Sävehof í Svíþjóð og var þar í tvö ár. Hann varð sænskur meistari með liðinu. Frá 2020 til 2022 var Ágúst Elí markvörður KIF Kolding en frá sumrinu 2022 fram í nóvember á þessu ári var hann samningsbundinn Ribe-Esbjerg. Frá miðjum ágúst og fram í miðjan október á þessu ári var Ágúst Elí á láni hjá danska meistaraliðinu Aalborg Håndbold.
Ágúst Elí hefur leikið 53 A-landsleiki og skorað í þeim þrjú mörk. Hann á að baki sex stórmót með landsliðinu; HM 2017, 2019, 2021, 2023 og EM 2018 og 2022. Síðast var Ágúst Elí með landsliðinu gegn Þýskalandi í vináttuleik í Nürnberg 30. október sl.
Erum spennt fyrir að hreiðra um okkur nyrðra
Ágúst Elí segir það verða stökk, en alls ekki stórt, að flytja frá Esbjerg á vesturströnd Jótlands og til Akureyrar. Ágúst Elí og eiginkona hans, Hrafnhildur Hauksdóttir, eiga fjögurra ára gamlar tvíburastúlkur.
„Ég er tel að við erum að flytja heim í geggjað umhverfi, ekki aðeins með tilliti til handboltans heldur einnig fjölskyldunnar. Ég hef ekki heyrt annað en að það sé gott að búa á Akureyri og bærinn sé mjög fjölskylduvænn. Ég er viss um að með flutningnum stigum við heillaskref. Við erum öll spennt fyrir að hreiðra um okkur á nýjum stað.“
Sjá einnig: Ágúst Elí er hættur hjá Ribe-Esbjerg
Eftirvænting að byrja
Ágúst Elí var í láni hjá danska meistaraliðinu í september og fram í miðjan október. Hann lék mikið með liðinu, jafnt í dönsku deildinni sem og í Meistaradeild Evrópu. Einnig var Ágúst Elí með landsliðinu í öðrum vináttuleiknum við Þýskaland í lok október. Það var síðasti leikurinn sem hann tók þátt í. Ágúst Elí hefur þar með lítið sem ekkert staðið vaktina í markinu síðan í fyrri hluta október. Skiljanlega er hann farinn að klæja í fingurna að komast í boltann á ný.

Var í sambandi við lið ytra
„Ég vil fyrst og fremst byrja að leika handbolta á nýjan leik. Eftir að hlutirnir fóru eins og þeir fóru hjá Ribe-Esbjerg var ég í sambandið við lið ytra. Meðan sýndu KA-menn mér mikinn skilning meðan annað fór sem kom inn á borðið. Á endanum vildi ég ekki flækja málin of mikið og niðurstaðan varð sú að semja við KA,“ sagði Ágúst Elí sem telur sig ekki vera að loka dyrunum að útlöndum og atvinnumennsku þar þótt hann flytji heim.
Markmiðið að verða góður með KA
„Maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég á góða konu og hún styður mig í þessu öllu saman. Það sem mér er efst í huga núna er að koma mér fyrir á Akureyri og taka upp þráðinn í handboltanum og hafa gaman af því. Hvað gerist í fjarlægri framtíð veit ég ekki. Markmiðið núna er bara að vera góður með KA,“ sagði Ágúst Elí Björgvinsson, nýr markvörður KA.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.


