- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eina sem skiptir máli er að vinna leikinn

Ágúst Þór Jóhannsson og Gunnar Magnússon stýrðu íslenska landsliðinu í fjórum leikjum, þrír unnust, einn tapaðist. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Leikurinn er ótrúlega mikilvægur. Við þurfum ekkert annað en sigur til þess að tryggja okkur efsta sætið og eiga þar með möguleika á að verða í efsta styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla fyrir EM,“ sagði Gunnar Magnússon annar þjálfara karlalandsliðsins í handknattleik í samtali við handbolta.is fyrir leikinn við Eistlendinga í Laugardalshöll í dag í síðustu umferð undankeppni Evrópumótsins sem haldið verður í Þýskalandi í janúar á næsta ári. Leikurinn hefst klukkan 16. Uppselt er í Laugardalshöll og hefur verið síðan á mánudaginn.

Tékkar geta náð efsta sæti

Íslenska landsliðið er í efsta sæti 3. riðils undankeppninnar en er jafnt Tékkum að stigum. Tékkar leika heima á móti Ísraelsmönnum á sama tíma og landslið Íslands og Eistlands mætast í Laugardalshöll. Tékkar geta þar með hirt efsta sætið ef leikmenn íslenska landsliðsins misstíga sig.

Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Staðan í riðlinum:

Ísland5401155:1138
Tékkland5401133:1178
Eistland5104135:1572
Ísrael5104123:1592

Markmiðið er ekki höfn

„Við höfum ekki náð okkar markmiði ennþá. Allir eru einbeittir og ætla sér sigur í lokaleiknum,“ sagði Gunnar sem stýrir væntanlega íslenska landsliðinu í síðasta sinn í dag ásamt Ágúst Þór Jóhannssyni. Þeir félagar tóku við eftir að Guðmundur Þórður Guðmundsson hætti í febrúar.

Leikmenn íslenska landsliðsins fagna með áhorfendum eftir sigurinn á Tékkum 12. mars sl. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Eistlendingar eiga möguleika

Íslenska landsliðið vann fyrri viðureignina við Eistlendinga sem fram fór í Tallin 15. október með 12 marka mun, 37:25. Gunnar segir að menn megi ekki láta úrslit leikja í fortíðinni slá ryki í augu sín. Eistlendingar muni leggja allt í sölurnar í dag þar sem þeir eiga möguleika á að verða eitt fjögurra liða sem komast áfram í lokakeppnina af þeim sem hafna í þriðja sæti riðlakeppninnar. Stig getur fleytt Eistlendingum inn á EM. Þess vegna er ljóst að þeir munu leggja sig alla fram.

Uppselt er í Laugardalshöll í dag. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Megum ekki bregðast

„Það er mikið undir hjá okkur svo að það kemur ekkert annað til greina en að vinna. Auk þess er fyrir löngu orðið uppselt á leikinn. Fólk verður komið til þess að sjá okkur. Við getum ekki brugðist fólkinu. Við ætlum að sýna alvöru frammistöðu. Við teljum okkur vera með betra lið en Eistar en það er ekki nóg þegar á hólminn verður komið ef menn sýna það ekki,“ sagði Gunnar.

Óbreytt lið

Ágúst og Gunnar tefla fram sömu 16 leikmönnum í leiknum í dag og unnu Ísraelsmenn í Tel Aviv á fimmtudaginn, 37:26. „Allir eru ferskir og klárir í slaginn. Okkur tókst að rúlla á öllum hópnum í leiknum sem var afar mikilvægt,“ sagði Gunnar Magnússon annar þjálfara íslenska karlalandsliðsins í samtali við handbolta.is í gær.

Viktor Gísli Hallgrímsson, Elliði Snær Viðarsson, Ýmir Örn Gíslason og Stiven Tobar Valencia verða í eldlínunni í dag. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Leikurinn verður sýndur á RÚV. Einnig verður handbolti.is með textalýsingu. Flautað verður til leiks klukkan 16.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -