Einar Baldvin Baldvinsson markvörður Aftureldingar gat ekki leikið með liðinu gegn ÍR í Skógarseli í kvöld. Hann meiddist á hægra hné í viðureign Aftureldingar og KA að Varmá fyrir viku. Í hans stað tók Davíð Hlíðdal Svansson fram skóna og var til taks hjá Aftureldingarliðinu með unglingalandsliðsmarkverðinum Sigurjóni Braga Atalsyni.
Þegar á hólminn var komið stóð Sigurjón Bragi allan leikinn í marki Aftureldingar sem vann leikinn naumlega, 37:36, og heldur efsta sæti deildarinnar með fullu húsi stiga að loknum fjórum umferðum.
Víst er að Einar Baldvin verður frá keppni um skeið. Hann verður örugglega ekki með Aftureldingu þegar hún tekur á móti Fram á heimavelli í fimmtu umferð Olísdeildar karla eftir viku.