Einar Jónsson hefur sagt starfi sínu lausu sem þjálfari kvennaliðs Fram í handknattleik. Þetta hefur handbolti.is samkvæmt heimildum. Einar tók við þjálfun kvennaliðs Fram fyrir ári af Stefáni Arnarsyni þegar hann færði sig yfir til Hauka. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hver tekur við af Einari.
Undir stjórn Einars hafnaði Fram í öðru sæti Olísdeildar í vetur og féll úr leik á dögunum í undanúrslitum úrslitakeppninnar fyrir Haukum. Rakel Dögg Bragadóttir var ásamt Einari þjálfari kvennaliðs Fram í vetur eins og árin á undan þegar hún starfaði við hlið Stefáns. Hvort breyting verður á hennar starfi þekkir handbolti.is ekki til.
Samhliða þjálfun kvennaliðsins hefur Einar, sem er með allra reyndustu handknattleiksþjálfurum landsins um þessar mundir, einnig þjálfað karlalið Fram og því haft í mörg horn að líta. Hann þjálfaði einnig bæði meistaraflokkslið Fram leiktíðina 2011/2012.