Einn áhrifamesti handknattleiksþjálfari á síðari hluta 20. aldar, Anatólij Evtúsjenkó, lést 91 árs gamall 6. janúar. Evtúsjenkó var landsliðsþjálfari karlalandsliðs Sovétríkjanna frá 1969 til 1990. Á þeim tíma varð sovéska landsliðið Ólympíumeistari 1976 og 1988 auk þess að hreppa silfurverðlaun á leikunum 1980. Einnig vann sovéska landsliðið heimsmeistaratitilinn 1982 undir stjórn Evtúsjenkó og hlaut silfurverðlaun 1978 og 1990.
Evtúsjenkó varð margfaldur landsmeistari sem þjálfari í Sovétríkjunum.
Eftir fall Sovétríkjanna flutti Evtúsjenkó til Þýskalands og þjálfaði þar um árabil m.a. þá stórlið TSV Milbertshofen í München. Eftir það tók Evtúsjenkó þátt í að leggja grunn að kvennaliði Hypo Niederösterreich auk þess að þjálfa kvennalandslið Austurríkis um skeið. Hypo Niederösterreich þjálfaði landslið Kúveit um árabil og vann Asíumótið einu sinni um leið og landsliðið tryggði sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Atlanta 1996.
Var hér á HM 1995
Evtúsjenkó kom nokkrum sinnum hingað til lands með landsliði Sovétríkjanna en einnig var hann með landslið Kúveit á HM 1995 hvar liðið lék í Íþróttahöllinni á Akureyri. Meðan HM 1995 stóð yfir var Evtúsjenkó m.a. í viðtali við Steinþór Guðbjartsson, blaðamann Morgunblaðsins. Evtúsjenkó var þá á sínu sjöunda heimsmeistaramóti sem landsliðsþjálfari en það var met. Hann lauk mótinu í tveggja leikja banni eftir að upp úr sauð í viðureign Kúveit og Egyptalands þar sem fjórir fengu rautt spjald.






