Hinn efnilegi handknattleiksmaður úr HK, Einar Bragi Aðalsteinsson, er sagður gangi til liðs við FH eftir keppnistímabilið í Olísdeildinni í sumar. Frá þessu var greint á Vísir.is í gærkvöldi en Stefán Árni Pálsson stjórnandi Seinni bylgjunnar á Stöð2Sport sagði frá þessu í þætti gærdagsins og hefur heimildir fyrir.
Þessar fregnir eru í samræmi við þrálátan orðróm sem hefur verið uppi síðustu vikur og hefur þráfaldlega borist handbolta.is til eyrna þótt ekki hafi tekist að fá hann staðfestan. Þ.e. að Einar Bragi hafi þegar gengið frá samkomulagi við FH.
Þjálfarar fleiri liða hafa verið með Kópavogsbúann unga undir smásjánni.
Einar Bragi er 19 ára gamall. Hann hefur vakið verðskuldaða athygli með HK í Olísdeildinni á keppnistímabilinu enda á stundum farið á kostum. Alls hefur Einar Bragi skorað 65 mörk í 10 leikjum með HK í Olísdeildinni, þar af 12 mörk í leik á móti Val og 16 gegn ÍBV í Vestmannaeyjum svo dæmi sé tekið.
- Auglýsing -