Íslenska landsliðið í handknattleik karla hefur einu sinni leikið við landslið Kúbu á heimsmeistaramóti áður en kemur að leiknum í Zagreb kl. 19.30 í kvöld í annarri umferð riðlakeppni HM 2025.
Viðureignin fór fram á HM 1990 í Zlín í Tékkóslóvakíu sem þá nefndist og er nú hluti af Tékklandi. Ísland vann leikinn, 27:23, eftir að hafa verið yfir í hálfleik, 17:8. Varnarleikurinn þótt vera í molum í síðari hálfleik en engu að síður átti Guðmundur Hrafnkelsson markvörður stórgóðan leik og varði 17 skot, þar af fóru fjögur aftur til Kúbumanna.
Fyrsti sigurinn í 16 ár
Sigurinn var sá fyrsti hjá íslenska landsliðinu í upphafsleik heimsmeistaramóti frá árinu 1964 þegar Egyptar voru lagðir að velli, 16:8, í Bratislava sem þá var einnig borg í Tékkóslóvakíu.
Bjarki og Kristján markahæstir
Bjarki Sigurðsson var markahæstur íslensku leikmannanna í sigrinum á Kúbu í Zlín fyrir 35 árum. Hann skoraði sjö mörk. Kristján Arason, faðir Gísla Þorgeirs Kristjánssonar sem nú leikur með landsliðinu, var næstur með sex mörk. Guðmundur Þórður Guðmundsson síðar landsliðsþjálfari var þriðji markahæstur með fjögur mörk.
Ísöxi og kristalsglöls í verðlaun
Bjarki var valinn besti leikmaður íslenska liðsins í leiknum og fékk að launum ísöxi eftir því sem fram kemur í fyrrgreindu Morgunblaði frá 1. mars 1990. Julian Duranona, sem síðar átti eftir að leika með íslenska landsliðinu á HM 1997 og 2001 og skora 54 mörk í 17 leikjum, var valinn besti leikmaður kúbverska liðsins. Duranona fékk hinsvegar ekki ísöxi eins og Bjarki, heldur kristalsglös. Líklega hafa mótshaldarar í Zlín talið að kristalsglös kæmu Duranona að meiri notum á Kúbu en ísöxi.
Sigurinn skipti öllu
Bogdan Kowalsczyk þáverandi landsliðsþjálfari Íslands sagði í samtali við Morgunblaðið eftir leikinn að sigurinn skipti öllu þótt ýmislegt hafi ekki tekist sem sem best í síðari hálfleik eftir frábæran fyrri hálfleik.
Alltof margt fór úrskeiðis
„Einbeitingin var í lagi, spilið var gott, mikill hraði og dæmið gekk upp. Í síðari hálfleik fór hinsvegar allt of mikið úrskeiðis, Kristján og Bjarki meiddust, Alfreð skoraði ekki og Sigurður Gunnarsson var of taugaóstyrkur,“ sagði Bogdan og viðurkenndi að hann hafi verið kvíðinn fyrir leiknum og óttast að Kúbumenn gætu unnið.
Fjögur töp í röð – Bogdan hætti
Eftir sigurinn á Kúbu tapaði íslenska landsliðið fjórum næstu leikjum sínum á mótinu, 19:18 fyrir Spáni, 27:20 fyrir Júgóslavíu, 27:19 fyrir Sovétríkjunum og 27:25, fyrir Póllandi. Loks tókst að snúa við gæfuhjólinu og vinna Austur Þýskaland, 19:17, í Bratislava. Í síðasta leiknum sem leikinn var i Prag tapaði íslenska landsliðið fyrir Frökkum, 29:23.
Niðurstaðan 10. sæti af 16 liðum sem voru vonbrigði eftir gullið í B-heimsmeistarakeppninni árið áður. Bogdan hætti þjálfun landsliðsins eftir HM 1990 og nokkrir leikmenn gáfu ekki oftar kost á sér í landsliðið.