„Þetta er einn skrýtnasti handboltaleikur sem ég hef séð. Ef lagðar eru saman fyrstu tíu mínúturnar í fyrri hálfleik og fyrstu tíu mínúturnar í síðari hálfleik þá eru við 15:0 undir. Eins ótrúlega og það hljómar þá áttum við samt möguleika á að fá eitthvað út úr leiknum fram á síðustu mínútu,“ sagði Hrannar Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar í samtali við handbolta.is í kvöld eftir fjögurra marka tap Stjörnunnar fyrir ÍBV, 22:18, í Olísdeild kvenna í TM-höllinni í kvöld.
Lékum einfaldlega hræðilega illa
„Við áttum ágæta kafla í leiknum en fyrstu tíu mínúturnar í hvorum hálfleik voru hroðalega slæmar hjá okkur,“ sagði Hrannar.
„Reyndar varði Marta frábærlega í marki ÍBV á fyrstu tíu mínútum fyrri hálfleiks. Hún skellti í lás og varði öll færi, dauðafæri eins og önnur. Sú var ekki raunin í upphafi síðari hálfleiks. Þá lékum við einfaldlega hræðilega illa,“ sagði Hrannar.
Nóg eftir af deildinni
Stjarnan hefur verið í öðru sæti Olísdeildar nánast frá upphafi mótsins í haust en er með þessu tapi fallin í þriðja sæti tveimur stigum á eftir ÍBV sem hirti annað sætið. „Það er nóg eftir af deildinni, tíu umferðir. Við ætlum ekki að gefa annað sætið eftir. Næst eigum við leik við Val á laugardaginn. Við mætum í þá viðureign til þess að vinna. Valur er ekki með ósigrandi lið,“ sagði Hrannar Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar í stuttu samtali við handbolta.is í TM-höllinni í kvöld.
Staðan í Olísdeild kvenna og næstu leikir.