- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eins og fuglinn Fönix reis landsliðið upp á ögurstund

Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Eins og fuglinn Fönix reis íslenska landsliðið upp á ögurstundu þegar mest á reið gegn Króötum í þriðju umferð milliriðlakeppninnar á Evrópumótinu í Lanxess Arena í Köln. Eins og illa hefur oft gengið gegn Króötum á stórmótum þá var þeirri sögu ekki vart lengi að þessu sinni. Íslensku landsliðið vann með fimm marka mun 35:30, eftir að hafa verið undir, 18:16, að loknum fyrri hálfleik.

Þetta var fyrsti sigur íslenska landsliðsins á því króatíska á stórmóti í handknattleik karla.

Draumurinn um sæti í forkeppni Ólympíuleikanna lifir ennþá þegar þetta er skrifað strax eftir leik og jafnvel er ennþá langsóttur möguleiki á að leika um fimmta sætið á EM á föstudaginn. Ef Frakkar vinna Austurríkismenn á eftir og Ísland leggur Austurríki er forkeppnissætið í höfn.

Upphafskaflinn var erfiður. Króatar voru fjórum mörkum yfir, 8:4, eftir átta mínútur og margt benti til þess að eitt og annað væri að sækja í gamla farið. Eftir hálfa tíundu mínútu var Ými Erni Gíslasyni vikið af leikvelli með rautt spjald, staðan var 9:6, fyrir Króata. Ekki blés endilega byrlega.

Elliði Snær Viðarsson og Björgvin Páll Gústavsson. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Fljótlega upp úr þessu komst stjórn á varnarleikinn. Aron Pálmarsson kom Íslandi yfir, 15:13, á 24 mínútu, í fyrsta sinn síðan í stöðunni, 4:3. Króatar áttu lokamínúturnar og fóru með tveggja marka forskot í hálfleik, 18:16.


Íslenska liðið sendi sterk skilaboð strax í upphafi síðari hálfleiks með því að skora fyrstu fimm af sex mörkunum og ná frumkvæðinu. Þótt Króatar jöfnuðu metin komust þeir aldrei langt yfir. Vörn Íslands small og hraðaupphlaupin skiluðu sér auk þess sem Björgvin Páll Gústavsson varði allt hvað af tók í markinu auk þess að skora eitt mark.

Það glitti hressilega í gamla góða íslenska landsliðið í þessum leik. Nokkuð sem margir hafa saknað til þess. Í mótlætinu tókst mönnum að grafa djúpt í fjársjóðskistuna.


Leikmenn íslenska landsliðsins eiga heiður skilinn fyrir að rísa upp á afturfæturnar í leiknum. Í gær fannst manni ekki endilega margt benda til þess. Þegar við bættist að Janus Daði Smárason og Ómar Ingi Magnússon voru veikir í dag, Gísli Þorgeir Kristjánsson meiddist í fyrri hálfleik og baráttujaxlinn Ýmir Örn Gíslason fékk rautt eftir nærri tíu mínútur þá reið ekki bjartsýnin húsum. Annað kom á gamla góða daginn.

Mörk Íslands: Bjarki Már Elísson 8/1, Aron Pálmarsson 6, Óðinn Þór Ríkharðsson 6/1, Viggó Kristjánsson 4, Haukur Þrastarson 3, Gísli Þorgeir Kristjánsson 3, Elliði Snær Viðarsson 2, Björgvin Páll Gústavsson 1, Elvar Örn Jónsson 1, Kristján Örn Kristjánsson, Donni, 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 11, 33,3% – Viktor Gísli Hallgrímsson 0.
Mörk Króatíu: Marin Jelinic 6, Zvonmimir Srna 4, Veron Nacinovic 4, Luka Cindric 4, Luka Cindric 4, Luka Klarica 4, Domagoj Duvnjak 4, Mario Sostaric 2, Igor Karacic 1, Filip Clavas 1.
Varin skot: Dominik Kuzmanovic 11, 31,4% – Matej Mandic 2, 16,7%.

Öll tölfræði leiksins hjá HB Statz.

Handbolti.is var í Lanxess Arena og fylgist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -