„Það má segja að það hafi erfið fæðing á þessum sigri okkar í dag en mér fannst við vera sterkari frá byrjun og í lokin tókst okkur að sigla framúr,“ sagði Elín Klara Þorkelsdóttir leikmaður U20 ára landsliðs kvenna við handbolta.is í Skopje í morgun eftir að íslenska landsliðið vann Sviss, 29:26, í viðureigninni um sjöunda sætið á heimsmeistaramótinu.
„Þetta var ellefti leikur okkar á innan við þremur vikum og ekkert óeðlilegt að það sé komin þreyta í mannskapinn. Við vökunuðum snemma til þess að klára þennan leik,“ sagði Elín Klara og bætti við.
„Mér fannst heilt yfir við vera sterkari á báðum endum vallarins. Á eðlilegum degi eigum við að vinna þetta lið örugglega.“
Miklar tilfinningar í spilinu
Elín Klara var í íslenska landsliðinu sem hafnaði í áttunda sæti á U18 ára HM fyrir tveimur árum. Nú náði liðið einu skrefi ofar. „Við getum ekki annað en verið sáttar við þennan árangur.
Annars voru miklar tilfinningar í gangi hjá okkur í leiknum. Allar að spila síðasta leikinn saman í yngri landsliðum. Árin hafa verið góð saman sem hefur skapað góðar minningar. Liðsheildin er frábær og þess vegna var einstaklega sætt að klára þetta í dag með sigri,“ sagði Elín Klara Þorkelsdóttir leikmaður U20 ára landsliðsins í samtali við handbolta.is í Skopje í morgun.
Lengra myndskeiðsviðtal er við Elínu Klöru efst í þessari frétt.
Sigur á Sviss í lokaleiknum – 7. sætið á HM í höfn
HMU20: Dagskrá og úrslit síðustu leikdagana