„Það fylgir því alltaf mikil eftirvænting að mæta á leikastað en við verðum að nýta tímann mjög vel fram að fyrsta leik,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla í handknattleik í samtali við handbolta.is í Zagreb í dag. Landsliðið kom til borgarinnar í gær og hefur nýtt tímann og mun nýta til undirbúnings fram að fyrsta leik á heimsmeistaramótinu sem verður gegn landsliði Grænhöfðaeyja á fimmtudaginn klukkan 19.30. M.a. var æft í 90 mínútur síðdegis í dag.
Erum að fínpússa
„Það er eitt og annað sem á eftir að fínpússa en um leið er gaman að vera að fínpússa þegar svo skammt er í fyrsta leik,“ segir Snorri Steinn sem sjálfur tók þátt í fimm heimsmeistaramótum sem leikmaður landsliðsins.
Farið yfir Svíaleikina
Snorri Steinn hefur farið vel yfir vináttuleikina við Svía sem fram fóru á fimmtudag og laugardag. Báður töpuðust er þjálfarinn vonsvikinn með að tapa, ekki síst þegar möguleikar eru á að vinna eins og hann segir.
„Engu að síður var marg jákvætt í leikjunum og margt sem við getum tekið með og notað. Hinsvegar voru leikirnir afar kaflaskiptir með jákvæðum og neikvæðum köflum. Við verðum að fjölga góðu köflunum og hafa þá betri. Þeir eru þarna. Ef okkur tekst vel þá líður mér vel.“
Hentar okkur betur
Snorri Steinn segir það vera kröfu af sinni hendi að leikmenn verði á fullri ferð frá fyrsta leik heimsmeistaramótsins. „Ég skil alveg umræðuna um skyldsigra en í mínum huga snýst þetta um að ég vil sjá gríðarlega vel einbeitt lið strax í fyrsta leik á HM og að við stjórnum leikjunum. Það gerist ekki að sjálfum sér. Ég hef svo engar ástæðu til þess að ætla annað en að menn verði á tánum frá byrjun. Það hefur aldrei hentar okkur Íslendingum vel að vera ekki á fullu gasi,“ segir Snorri Steinn sem ræðir ennfremur um kröfurnar sem gerðar eru til landsliðsins og kröfur landsliðsmanna til þeirra sjálfra á stórmótum.
Lengra myndskeiðsviðtal við Snorra Stein er að finna hér rétt fyrir ofan.
Fyrsti leikur íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu 2025 verður gegn Grænhöfðaeyjum í Zagreb Arena á fimmtudaginn, 16. janúar. Flautað verður til leiks klukkan 19.30. Þar á eftir verður leikið gegn Kúbu 18. janúar og Slóvenum 20. janúar. Framhaldið ræðst síðan af árangrinum í leikjunum þremur.