Herforinginn úr Eyjum, Erlingur Richardsson, er kominn til Prag í Tékklandi með hersveit sína (ÍBV) til að herja á Dukla Prag. Eyjamenn ákváðu að mæta Dukla í tveimur viðureignum á Moldárbökkum í Evrópubikarkeppninni.
Íslenskir herflokkar hafa 9 sinnum áður leikið gegn Tékkum í Evrópukeppnum. FH þrisvar, Víkingur tvisvar og Valur, Þróttur, Haukar og Selfoss einu sinni.
Fyrstir Íslendinga til að herja á Tékka voru FH-ingar, sem léku gegn herliði Dukla Prag í Evrópukeppni meistaraliða 1965-1966. Dukla, sem var talið eitt af þremur bestu liðum Evrópu, fagnaði sigri í fyrri rimmunni í Laugardalshöllinni, 20:15. Páll Eiríksson skoraði þá 9/8 mörk, aðrir minna.
Herfylkingarnar mættust síðan í Prag á sunnudagsmorgni kl. 10.30, eða á sama tíma og börn í Hafnarfirði mættu í sunnudagaskólann í Fríkirkjunni þar í bæ.
Ragnar Jónsson gat ekki leikið í Prag vegna meiðsla og Kristján Stefánsson, sem var búsettur í Lúxemborg, sem starfsmaður Loftleiða, fékk sig ekki lausan til að leika með FH.
Erfiðlega gekk fyrir fjölmiðla á Íslandi að ná sambandi við FH-inga til að fá fréttir. Það var ekki fyrr en á mánudagsmorgni að Vísir fékk, rétt fyrir prentun, upplýsingar um að FH hafði tapað stórt, 16:23.
Ekkert annað var í fréttum frá Prag. RÚV hafði ekkert að segja fyrr en lesnar voru upp tölur úr Vísi (16:23) í hádegisfréttum á mánudegi, eða rúmum sólarhring eftir að leik FH lauk.
Dagblaðið Tíminn gat bætt við í þriðjudagsblaðinu, að Páll Eiríksson hefði skorað 6 mörk, Birgir Björnsson, Geir Hallsteinsson og Guðlaugur Gíslason tvö hver. Þar með voru allar upplýsingar á borð bornar; Dukla Prag – FH 23:16, Páll 6, Birgir 2, Geir 2, Guðlaugur 2. Annað var ekki að frétta!
Hefðu 9 upplýsingafulltrúar dugað?
Það hefði verið gott fyrir FH-inga, ef þeir hefðu haft þann munað að vera með, þó að það væri ekki nema einn af NÍU upplýsingafulltrúum, sem starfa nú við Ráðhús Reykjavíkur.
Spurningin er, hefðu upplýsingar verið nokkuð betri. Borgarfulltrúar Reykjavíkur segjast velta við hverjum steini og krónum, til að finna réttar tölur!
Aftur til Prag, sem þessar viðureignir hafa farið fram:
1965-1966: Evrópukeppni meistaraliða, 8-liða úrslit:
FH – Dukla Prag 15:20.
Dukla Prag – FH 23:16.
1981-1982: Evrópukeppni bikarhafa, undanúrslit:
Þróttur – Dukla Prag 17:21.
Dukla Prag – Þróttur 23:19.
1982-1983: Evrópukeppni meistaraliða.
Víkingur – Dukla Prag 19:18.
Dukla Prag – Víkingur 15:23.
2017-2018: EHF-keppnin:
Dukla Prag – FH 27:30.
FH – Dukla Prag 31:25.
* Einar Rafn Eiðsson skoraði 10 mörk fyrir FH.
* FH áfram.
Góð samskipti Tékka og Íslendinga
Koma Dukla Prag til Íslands til að leika gegn FH 1966, var upphafið á góðum samskiptum Íslands og Tékkóslóvakíu í handknattleik. Áður höfðu landsliðsmenn frá Íslandi og Tékkóslóvakíu kynnst lítillega á HM í Vestur-Þýskalandi 1961 er Ísland og Tékkóslóvakía gerðu jafntefli í Stuttgart, 15:15.
Tékkar sendu landslið sitt til Íslands 1967 og 1969, en þá voru þeir heimsmeistarar. Þeir völdu frekar að koma til Íslands en Danmerkur, á leið sinni um Vestur-Þýskaland og Svíþjóð. Tékkar voru hrifnir að hugmyndaríkum leik Íslendinga.
Með Dukla Prag, sem var uppistaðan í tékkneska landsliðinu, léku leikmenn eins og Mares, Rada, Vica, Duda, Havlik og Trojan, svo einhverjir kappar séu nefndir.
Víkingur reyndi að fá „Íslandsvinurinn“ Vojtech Mares sem þjálfara 1972, en það tókst ekki. Mares var synjað að fara, þar sem innrás Varsjábandalagsins var ný afstaðin.
HSÍ reyndi að fá Mares sem landsliðsþjálfara 1975 og var hann búinn að fá grænt ljós hjá handknattleikssambandi Tékkóslóvakíu, en „flokkurinn“ setti rautt ljós á hann. Mares varð síðar landsliðsþjálfari Tékkóslóvakíu og Bandaríkjanna.
Víkingur fékk síðan til sín Rudolf Havlik, leikmann Dukla og landsliðsþjálfara Tékkóslóvakíu, 1983. Hann var stutt hjá Víkingi, en gerðist þjálfari HK og var í Kópavogi í nokkur ár. Havlik fékk til HK landsliðsmanninn Michal Tonar, sem er nú einn af þjálfurum Dukla.
Út fyrir Prag
Íslensk lið hafa fimm sinnum leikið gegn liðum frá Tékklandi, sem hafa herbúðir sínar fyrir utan Prag, en viðureignirnar eru:
1993-1994: Evrópukeppni meistaraliða – báðir leikir í Laugardalshöll.
Valur – Tantra Koprivnice 23:23.
Valur – Tantra Koprivnice 22:18.
* Valur áfram.
1994-1995: Evrópukeppni bikarhafa – báðir leikir í Kaplakrika:
FH – Novesta Zlin 26:23.
FH – Novesta Zlin 20:20.
* FH áfram.
1995-1996: EHF-bikarinn. Báðir leikir í Zubri.
Gumarny Zubri – Víkingur 23:16.
Gumarny Zubri – Víkingur 27:22.
2019-2020: EHF-bikarinn.
Talent MAT Plzen – Haukar 26:25.
Haukar – Talent MAT Plzen 20:25.
2021-2022: Evrópubikarkeppni EHF, báðir leikir leiknir í Koprivnice.
KN Ismm Koprivnice – Selfoss 25:31.
KN Ismm Koprivnice – Selfoss 28:28.
* Selfoss áfram.
Þess má geta að Talent er frá Plzen, sem er í vestanverðu Tékklandi, en hin fjögur liðin eru frá austanverðu Tékklandi; við landamæri Slóvakíu. Zlin er gamla Gottwaldo.
Íslensk lið hafa leikið 9 sinnum í Tékklandi, unnið 2 leiki, gert eitt jafntefli og tapað sex leikjum.
Nú er spurning; tekst ÍBV að rétta tölfræðina við um helgina, þegar liðið leikur gegn Dukla Prag í dag og á morgun? Eitt er víst að það verður betra samband við Tékkland heldur en þegar FH lék í Prag fyrir 56 árum. Ég er viss um að það geta níu upplýsingafulltrúar Reykjavíkurborgar lofað.
Auf Wiedersehn!
Sigmundur Ó. Steinarsson