„Ég tognaði í vinstri rassvöðva í næst síðast leiknum á árinu. Þetta er ekkert alvarlegt og reikna með að jafna mig á tveimur til þremur vikum,“ segir Elvar Örn Jónsson landsliðsmaður í handknattleik fyrir æfingu landsliðsins í handknattleik í morgun í Víkinni. Elvar Örn tók ekki þátt í æfingunni af sama þunga og aðrir leikmenn liðsins en bindur vonir við að fara af stað þegar kemur fram í næstu viku, eins og Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik sagði í samtali við handbolta.is í gær.
„Þetta var yfirborðstognum og hef þar af leiðandi ekki miklar áhyggjur af þessu. Ég verð klár þegar HM hefst,“ segir Elvar Örn sem er undir góðu eftirliti föður síns Jóns Birgis Guðmundssonar sjúkraþjálfara, sem jafnframt er með landsliðsmenn í sínum höndum.
Elvar Örn segir leikmenn landsliðsins vera staðráðna í gera betur en á EM í upphafi síðasta árs þegar liðið hafnaði í tíunda sæti. Allir telja sig eiga inni að ná lengra.
„Fyrsta markmiðið er að vinna riðilinn sem við verðum í áður en lengra verður litið,“ segir Elvar Örn Jónsson landsliðsmaður og leikmaður toppliðs þýsku 1. deildarinnar, MT Melsungen.
Nánar er rætt við Elvar Örn í myndskeiði í þessari frétt.
Heimsmeistaramótið í handknattleik karla hefst 14. janúar í Danmörku, Króatíu og Noregi. Fyrsti leikur íslenska landsliðsins verður 16. janúar. Áður HM hefst leikur íslenska landsliðið tvo leiki við Svía ytra 9. og 11. janúar. Báðir leikir verða sýndir á RÚV.