Eins og víða hefur komið fram þá féll lið ÍR úr Olísdeild karla í handknattleik eftir að hafa farið í gegnum keppnistímabilið 2020/2021, 22 leiki, án þess að fá stig. Árangursleysi ÍR-inga í deildinni er alls ekkert einsdæmi eins og haldið hefur verið fram þótt vissulega hafi það sjaldan átt sér stað að lið reki lestina í efstu deild Íslandsmóts karla þegar dæmið er gert upp í leikslok án stigs eða stiga.
Þegar flett er í mótakerfi HSÍ, en það nær aftur til keppnistímabilsins 1994/1995, kemur í ljós að tvisvar áður hafa lið lokið keppni í efstu deild án stiga og það meira að segja lið frá sama félaginu, Breiðabliki.
Vorið 1998 rak Breiðablik lestina í efstu deild í mótslok eftir 22 umferðir án stiga og með 236 mörk í mínus. Þremur árum síðar fór á sömu leið fyrir liði Breiðablik. Það lauk keppni eftir 22 umferðir án þess að hafa önglað í eitt stig. Markatalan var verri en þremur árum áður eða sem nam 254 mörkum.
ÍR-ingar luku keppni Olísdeildinni í gærkvöld með 171 mark í mínus.
Uppfært eftir ábendingu lesanda: Þór Akureyri rak lestina án stiga í 10 liða efstu deild karla keppnistímabilið 1987/1988.
Tvö lið með eitt stig
Frá 1995 hafa tvö lið rekið lestina með eitt stig eftir keppnistímabilið í efstu deild karla. ÍH úr Hafnarfirði náði í eitt stig leiktíðina 1994/1995 í 12 liða deild. Eina stigið fékkst með jafntefli við HK, 18:18, á heimavelli.
Átta árum síðar var Selfoss með eitt stig þegar upp var staðið í 14 liða efstu deild vorið 2003. Stigið eina vannst í leik við Víking í febrúar 2003, 30:30, á heimavelli. Víkingur hafnaði í næsta neðsta sæti þegar upp var staðið með sex stig.
Fylkir fékk tvö stig í efstu deild, einn sigur, í 12 liða deild keppnistímabilið 1999/2000. Eini sigur liðsins var á ÍR-ingum í 13. umferð en alls voru 12 lið í deildinni og þar af leiðandi leiknar 22 umferðir.
Jafntefli í upphafi dugði skammt
Tvisvar sinnum hafa liðið orðið neðst með þrjú stig, bæði í átta liða deild með þrefaldri umferð, 21 umferð.
Grótta fékk þrjú stig keppnistímabilið 2011/2012. Seltirningar fóru ekki illa af stað. Þeir gerðu jafntefli við Val í fyrstu umferð haustið 2011, 21:21. Eftir það fór allt í skrúfuna og liðið tapaði 15 leikjum í röð. Það var ekki fyrr en í 17. umferð sem Gróttumönnum hafði tekist að greiða tímabundið úr flækjunni. Þá unnu þeir efsta lið deildarinnar, Hauka 23:20. Þetta reyndist eini sigurinn á tímabilinu í deildinni. Haukar urðu hinsvegar deildarmeistarar.
Tveimur árum síðar, tímabilið 2013/2014, varð HK neðst í átta liða efstu deild með þrjú stig. Eins og Grótta tveimur árum fyrr byrjaði HK á að gera jafntefli í fyrstu umferð við FH 22:22. Síðan tóku við sjö tapleikir í röð áður en sigur vannst á Fram í 9. umferð, 23:20. Eftir það bættust við 13 tapleikir í röð, þeirra stærstur fyrir Val, 48:18 í 13. umferð. Skipt var um þjálfara eftir 15 leiki en þeim sem tók við lánaðist ekki að stöðva blæðinguna þrátt fyrir að hafa marga fjöruna sopið.