Efsta lið Grill 66-deildar kvenna í handknattleik, KA/Þór, hóf árið í kvöld eins og það lauk leikárinu í deildinni í nóvember á sigri. Leikmenn KA/Þórs lögðu land undir fót í dag og léku við Fram2 í Lambhagahöllinni í Úlfarsárdal og unnu örugglega, 29:21, eftir að hafa verið mest 11 mörkum yfir fimm mínútum fyrir leikslok, 27:16.
KA/Þór hefur þar með fimm stiga forskot í efsta sæti deildarinnar eftir níu umferð. Liðið er með 17 stig en HK og Afturelding eru næst á eftir með 13 stig hvort. Fram2 er áfram í 5. sæti með 12 stig eins og Valur2 sem situr í fjórða sæti.
Snemma var ljóst í leiknum í Lambhagahöllinni að Akureyrarliðið var talsvert sterkara. KA/Þórsliðið fór af miklum krafti af stað og skoraði átta af fyrstu 10 mörkunum. Eftir það má segja að ekki hafi leikið vafi á um hvort liðið færi með sigur úr býtum. Þegar Arnór Jón Sigurðsson og Guðbjörn Ólafsson flautuðu til hálfleiks var sjö marka munur á liðunum, 17:10, KA/Þór í vil. Áfram var um einstefnu að ræða í síðari hálfleik.
Matea Lonac fór hamförum í marki KA/Þórs. Hún varði 21 skot og var með liðlega 50% markvörslu. Sif Hallgrímsdóttir leysti Lonac af undir lokin.
Tinna Valgerður Gísladóttir, sem fékk leikheimild með KA/Þór í morgun, tók þátt í viðureigninni og skoraði m.a. þrjú mörk.
KA/Þórsliðið kemur aftur suður á laugardaginn og heldur þá á Ásvelli og mætir Haukum2.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.
Mörk Fram2: Sóldís Rós Ragnarsdóttir 8, Valgerður Arnalds 5, Elín Ása Bjarnadóttir 4, Sylvía Dröfn Stefánsdóttir 3, Þóra Lind Guðmundsdóttir 1.
Varin skot: Ethel Gyða Bjarnasen 14.
Mörk KA/Þórs: Aþena Einvarðsdóttir 6, Susanne Denise Pettersen 6, Anna Þyrí Halldórsdóttir 5, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 4, Tinna Valgerður Gísladóttir 3, Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 2, Ólöf Kristín Þorsteinsdóttir 2, Hildur Magnea Valgeirsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 21, Sif Hallgrímsdóttir 1.