Ekkert lát er á sigurgöngu Kristjáns Arnar Kristjánssonar, Donna, og samherja hans í PAUC frá Aix í efstu deild franska handknattleiksins. Í kvöld lögðu þeir félagar liðsmenn Toulouse, 35:28, í sjöunda leik PAUC á útivelli á leiktíðinni.
Þar með komst PAUC upp í þriðja sæti deildarinnar. Liðið hefur 14 stig að loknum átta leikjum og hefur nú unnið sjö leiki í röð, þar af sex þeirra á útivelli. PAUC hefur nú bætt félagsmet sitt yfir flesta sigurleiki í röð í efstu deild. Gamla félagsmetið voru fimm sigurleikir í röð í efstu deild.
„Mér finnst vera mikill stígandi í okkar leik. Önnur lið farin að óttast það mikið. Maður finnur fyrir,“ sagði Donni við handbolta.is í kvöld.
Donni skoraði þrjú mörk í fimm skotum og er enn markahæsti leikmaður PAUC en hann gekk til liðs við franska liðið frá ÍBV á síðasta sumri og hefur svo sannarlega stimplað sig inn í franska handboltann.
PSG er efst í deildinni með 20 stig eftir 10 leiki. Grannliðin Montpellier og PAUC er í næstu tveimur sætunum með 14 stig að loknum átta leikjum. Limoges og Nantes er næst á eftir með 13 stig. Limoges eftir 11 leiki en Nantes hefur lokið átta viðureignum.
PAUC á eftir tvo leiki fyrir jólaleyfi, báða á heimavelli. Annar er gegn Tremblay og hinn á móti Nantes. Thierry Anti núverandi þjálfari PAUC þjálfaði Nantes í áratug en hætti sumarið 2019.