- Auglýsing -
Viðureign Gróttu og Aftureldingar sem fram átti að fara í Olísdeild karla í handknattleik í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi á laugardaginn hefur verið frestað vegna covidsmita í herbúðum Aftureldingar. Mótanefnd HSÍ staðfesti frestunina fyrir stundu en hún hefur legið í loftinu um nokkurt skeið.
Arnar Daði Arnarsson þjálfari Gróttu sagði í samtali við handbolta.is í fyrrakvöld að hann reiknaði með að leiknum yrði frestað.
Afturelding hefur ekki náð einum leik til þessa í Olísdeildinni. Liðið átti að leika við Selfoss á síðasta sunnudag en af því varð ekki.
Mótanefnd hefur ekki ákveðið hvenær viðureign Gróttu og Aftureldingar fer fram enda er ærið verk að púsla Íslandsmótinu saman þessa daga þegar fleiri leikjum en færri frestað. Miðað við fjölda smitaðra á hverjum degi má því miður búast við að áfram verði að salta leiki í öllum deildum Íslandsmótsins næstu vikur.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði í samtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag, að reikna megi með að smittölur verði háar áfram næsta mánuðinn og að halinn gæti náð inn í apríl.
Stöðu og næstu leiki í Olísdeild karla má sjá hér.
- Auglýsing -