- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ekkert verkefni er of stórt – 40 sjálfboðaliðar og miklar kröfur

Valsmenn hefja leik í kvöld í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handknattleik. Mynd/Baldur Þorgilsson, baldur29@gmail.com
- Auglýsing -

Ekkert verkefni er of stórt í augum Gísla Hafsteins Gunnlaugssonar formanns handknattleiksdeildar Vals, eða Gísla pípara. Hann viðurkennir þó að sér og stjórnarmönnum hafi hrosið hugur í sumar fyrst þegar þeir lásu yfir möppuna frá Handknattleikssambandi Evrópu, EHF, með öllum reglunum eftir að Valur ákvað að taka boði EHF um þátttöku í Evrópudeildinni.

Fyrsti leikur Vals í B-riðli Evrópudeildar karla í handknattleik verður annað kvöld í Origohöllinni og hefst klukkan 18.45. Ungverska liðið FTC (Ferencváros) er fyrsti andstæðingurinn en alls verða heimaleikir Vals fimm í keppninni, þar af þrír fyrir áramót. Til viðbótar leikur Valur fimm sinnum á útivelli.

40 sjálfboðaliðar að störfum

Kröfurnar sem gerðar eru til félagsins eru gríðarlega miklar vegna umgjarðar leiksins og aðbúnaðar leikmanna, þjálfara, dómara og eftirlitsmanna. Ekki færri en 40 sjálfboðaliðar verða að störfum fyrir handknattleiksdeild Vals á leikdegi. Margir hafa unnið dögum saman. Það hafi komið sér vel að Valur hefur á að skipa fjölbreyttum og dugmiklum sjálfboðaliðum í viðbót við vaska starfsmenn í Origohöllinni. Til viðbótar hefur HSÍ lagst á árar með Val m.a. með láni á keppnisdúk sem skylt er að nota.

Hvort Gísli Hafsteinn verður í gula vestinu í gæslu á leiknum á morgun skal ósagt um látið en víst er að hann verður ekki langt undan. Mynd/Baldur Þorgilsson -baldur29@gmail.com

Vottaði fyrir eftirsjá

„Það vottaði aðeins fyrir eftirsjá og vangaveltum um hvort við gætum kannski hætt við þegar við lásum yfir möppuna á fyrsta fundi. Við jöfnuðum okkur fljótt og tókum strax stefnuna beint áfram. Við ætlum okkar alla leið og ljúka þessu með sóma,“ sagði Gísli léttur í bragði þegar handbolti.is hitti hann að máli í Origohöllinni í dag.

Tryggðu þér aðgöngumiða á viðureign Vals og FTC á morgun. Miðasala á Tix.is.

Margar stífar og strangar reglur

„Þetta er allt saman töluvert stærra en við reiknuðum með þegar ákveðið var að láta slag standa. Þetta er ekkert líkt þeim erlendum keppnum sem við höfum tekiðþátt í fram til þessa. Margar reglur sem verður að fara eftir, mjög strangar og stífar, jafnt smáar sem stórar,“ sagði Gísli.

Tuga milljóna kostnaður

Ekki er nóg með að fjölmörgum reglum og boðum verði að hlýta þá er ljóst að kostnaðurinn er mikill. Hann hleypur á tugum milljóna. Gísli segir leikmenn hafa unnið ákaft við öflun fjár til þátttökunnar auk stjórnarmanna og marga sjálfboðaliða. „Við getum klárað þetta með samvinnu margra. Það er ljóst.“

Glæsilegasta umgjörð til þessa

Umgjörðin á heimaleikjum Vals verður einstaklega glæsileg og með því besta, ef ekki sú besta sem boðið hefur verið upp á í handboltaleik hér á landi til þessa, smækkuð útgáfa af því sem Íslendingar sem farið hafa á stórleiki erlendis þekkja til.


„Okkar markmið er að fylla Origohöllina á öllum heimaleikjum okkar. Búa til gryfju í frábærri umgjörð þar sem allir eiga að geta notið frábærra leikja. Við skorum á handboltaáhugafólk að koma,“ sagði Gísli Hafsteinn Gunnlaugsson hinn röggsami formaður handknattleiksdeildar Vals í samtali við handbolta.is.

Miðasala er á Tix.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -