„Emil stenst ekki þær kröfur sem gerðar eru til alvöru íþróttamanna,“ sagði Nikolaj Jakobsen, landsliðsþjálfari Dana í handknattleik fyrir 514 dögum síðan þegar hann var spurður af hverju hann veldi ekki markvörðinn unga, Emil Nielsen, í landsliðið. Nielsen hafði þá farið á kostum með Skjern í dönsku úrvalsdeildinni og átt stóran þátt í að liðið varð danskur meistari vorið 2019. Hann hafði þá einnig samið við franska stórliðið Nantes um að ganga til liðs við það um sumarið.
Nielsen tók upp þráðinn í Frakklandi og varði eins berserkur á síðasta keppnistímabili. Og hann hefur sótt í sig veðrið á núverandi keppnistímabili og átt hvern stórleikinn á fætur öðrum í Meistaradeild Evrópu.
Þar kom að því að Jakobsen komst ekki hjá því að velja í landslið sitt markvörðinn sem hann taldi fyrir hálfu öðru ári ekki standast þær kröfur sem gerðar væri til alvöru íþróttamanna. Því að þótt Nielsen sé kannski luralegur og falli e.t.v. ekki alveg að einhverri ímynd í útliti þá er hann frábær markvörður. Svo magnaður að hávær orðrómur er uppi um að hann gangi til liðs við Barcelona næsta sumar og leysi landa sinn Kevin Möller af hólmi.
Jakobsen vildi ekki alveg éta ummæli sín frá því fyrir 514 dögum í gær þegar hann var spurður hvort Nielsen væri nú orðinn íþróttamaður sem væri hægt að taka alvarlega. „Ég er ekki þjálfari Nantes en nú fær hann tækifæri til þess að láta ljós sitt skína og keppa við Landin og Green,“ sagði Jakobsen sem valdi þrjá markverði í hóp sinn fyrir leikina tvo í undankeppni EM í byrjun nóvember, hinn frábæra Niklas Landin markvörð Kiel og Jannick Green, markvörð SC Magdeburg auk Nielsen sem margir telja að verði arftaki Landin og markvörður danska landsliðsins næstu 15 ár.
„Kannski vantaði mig aðeins meira aðhald hjá Skjern sem ég hef kannski fengið núna hjá Nantes. Annars er best að segja sem minnst. Orð hans tilheyra liðinni tíð,“ sagði Nielsen sem vildi ekki velta sér mikið upp úr gömlum ummælum landsliðsþjálfarans.