- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ekki er öll vitleysan eins

Mynd/EPA
- Auglýsing -

Mér fyrirmunað að átta mig á því af hverju Handknattleikssamband Evrópu sló ekki fyrir nokkru síðan út af borðinu væntanlega leiki í undankeppni EM2022 í karlaflokki sem fram fara í vikunni. Hvernig dettur mönnum í hug að senda hundruð handknattleiksmanna, þjálfara, dómara yfir lönd og jafnvel höf meðan kórónuveiran fer sem eldur í sinu yfir Evrópu? Eldur sem virðist frekar vera að sækja í sig veðrið fremur en hitt.


Almenningur er hvattur til að fara helst ekki út fyrir hússins dyr nema í brýnni neyð. Sumstaðar er útgöngubann. Fáir eru á ferðalögum, þá helst tilneyddir. Að ferðast frá miðri Evrópu til Íslands tekur meira en sólarhring. Hótel og flugstöðvar eru nánast eins og draugabæli og með herkjum hægt að kreista út vatnsflösku í sjálfsölum.


Eru stjórnendur EHF algjörlega lokaðir inn í fílabeinsturni þar sem engum sögum fer af því sem gerist fyrir utan? Hvað á maður eiginlega að halda.


Reynslan af því að halda úti keppni í Meistaradeildum karla og kvenna og nú síðast í hinum nýju Evrópudeildum ætti að hafa nægt forsvarsmönnum EHF til þess að hætta við þessa leiki fyrir nokkru síðan.


Allt frá því að keppni hófst í Meistaradeildinni í septemberbyrjun hefur þurft að slá leikjum á frest. Leikmenn, þjálfarar og starfsmenn hafa smitast í heimsóknum milli landa vegna leikja. Nýlegt dæmi er af ferð ungverska liðsins Pick Szeged til Hvíta-Rússlands þar sem nokkrir leikmenn og starfsmenn reyndust smitaðir fljótlega eftir heimkomu. Fimm leikmenn Alingsås í Svíþjóð smituðust að öllum líkindum í ferð til Króatíu vegna þátttöku í kappleik í Evrópudeildinni. Dæmin eru fleiri.

Á þriðjudaginn í síðustu viku fóru aðeins fjórir af 12 leikjum fram í Evrópudeild karla. Átta var frestað vegna þess að liðin voru ófær um að senda viðunandi kapplið til leiks vegna kórónuveirunnar. Í gær var heilt lið í Þýskalandi með þjálfara og starfsmönnum annað hvort sett í einangrun eða í sóttkví eftir hópsmit. Lið sem var þremur dögum fyrr í kappleik í þýsku 1. deildinni. Þetta gerðist þrátt fyrir að leikmenn, þjálfarar og starfsmenn liðsins eins og annarra hafi gengist undir tvær til þrjár skimanir á viku frá því sumar.


Leikmenn, þjálfarar og starfsmenn fara varla út fyrir hússins dyr dagsdaglega nema þá til æfinga og leikja til að forðast óværuna til að vernda sjálfa sig og aðra. Yfirmenn handboltans í Evrópu biðja menn um sýna íþróttanda og taka þátt í leikjum. Bara nota grímur, þvo hendur, sitja og þegja.


Reyndar hefur þriðjungi þeirra landsleikja sem fram áttu að fara í vikunni verið frestað en allt bendir til þess að reynt verði að koma þeim í kring sem eftir standa. Þar á meðal viðureign Íslands og Litháen í Laugardalshöll á miðvikudagskvöldi. Kappleikur í lélegri umgjörð sem vart verður til að auglýsa íþróttina á milli liða sem varla hafa æft saman. Stemningin verður eins og í æfingaleik fyrir luktum dyrum.

Hvað þá hefur leikmönnum einu sinni tekist að tala saman nema þá helst í gegnum síma á milli herbergja á hótelum. Kannski náð einni æfingu saman þar sem þeir mega vart yrða hver á annan. Hverslags undirbúningur er þetta fyrir leik í undankeppni stórmóts? Þykir EHF nóg að skrapað sé saman í tvö lið til þess að úr verði alvöru kappleikur í marktækri keppni þar sem meiri tíma fer í ferðalög en æfingar og undirbúning?

Hverslags er þetta eiginlega bara yfirhöfuð? Er þetta góð auglýsing fyrir íþrótt sem hefur eytt formúgu fjár í að bæta ímynd sína á undanförnum árum?

Hvernig stendur á því að stjórnendum EHF dettur í hug að efna til þessarar vitleysu?

Svör við þessu spurningum og mörgum fleiri fást aldrei.

Ívar Benediktsson, ivar@handbolti.is

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -