Hildigunnur Einarsdóttir reyndasti leikmaður Vals segir síðari úrslitaleikinn í Evrópubikarkeppninni við BM Porriño á Hlíðarenda klukkan 15 á morgun vera einn stærsta leik sinn á löngum ferli. Ekki dragi úr eftirvæntingunni sú staðreynd að um verður að ræða síðasta Evrópuleik hennar á ferlinum. Hildigunnur ætlar að leggja skóna á hilluna í vor.
Fæ sting í magann
„Það er ógeðslega gaman að hafa náð svona langt. Maður fær smá sting í magann við að hugsa til þess að þetta verður kveðjuleikur minn í Evrópu. Á móti kemur að það er vart hægt að hugsa sér betri aðstæður en að kveðja Evrópukeppnina í úrslitaleik um Evrópubikarinn. Ég held að það sé ekki hægt biðja um meira,“ segir Hildigunnur í samtali við handbolta.is í dag.
Jafntefli í fyrri leiknum
Fyrri viðureign Vals og BM Porriño sem fram fór á Spáni fyrir viku lauk með jafntefli, 29:29. Þar af leiðandi er viðureignin á morgun alveg opin. Aðeins eitt er víst og það er að Evrópubikar fer í fyrsta sinn á loft hér á landi á Hlíðarenda á fimmta tímanum á morgun.
Ætlum okkur að vinna
„Við leggjum allt í sölurnar til þess að vinna en það einnig ljóst að bikarinn fer á loft hvort sem við vinnum eða töpum. Hinsvegar er það ljóst í okkar huga að við ætlum okkur að vinna. Yfir það drögum við ekki fjöður,“ segir Hildigunnur.
Viljum fulla keppnishöll
„Það þarf fulla höll á morgun. Fyrri leikurinn fór fram fyrir framan fulla höll [innskot – ríflega 2.000 áhorfendur] og við þurfum að fá nákvæmlega sömu aðstæður á morgun,“ segir Hildigunnur Einarsdóttir leikmaður Vals.
Lengra viðtal við Hildigunni er í myndskeiði hér fyrir ofan.
Miðasala á síðari úrslitaleikinn er á stubb.is.
Evrópubikarkeppni kvenna – fréttasíða.
Þúsund miðar seldir
Miðasala hefur gengið afar vel. Í hádeginu í dag höfðu selst um 1.000 miðar en annað eins af miðum er enn til sölu.
Valur lofar frábærri stemningu og veglegri dagskrá auk leiksins sem hægt að kynna sér hér fyrir neðan.
