- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ekki í boði að gera mörg mistök

Arnór Snær Óskarsson leikur með Rhein-Neckar Löwen næstu tvö ár. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Göppingen er með gott lið sem er ekkert langt frá Flensburg þótt talsverður munur sé á stöðu liðanna í deildinni um þessar mundir. Ég reikna með svipuðum leik,“ sagði Arnór Snær Óskarsson leikmaður Vals þegar handbolti.is innti hann eftir andstæðingi Valsliðsins í kvöld, þýska liðinu Göppingen, sem mætir til leiks í Origohöllinni klukkan 19.45. Um er að ræða fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handknattleik karla.

Frisch Auf! Göppingen er eitt af fornfrægum liðum í þýskum handknattleik. Lið félagsins hefur níu sinnum orðið þýskur meistari, síðast 1972.
Göppingen er frá samnefndum 60 þúsund manna bæ í suðurhluta Þýskalands, austan við Stuttgart. Göppingen fæðingarbær Jürgen Klinsmann knattspyrnumanns og þjálfara og í bænum er að finna bækistöðvar aðalsponsors Manchester United, TeamViewer. 
Keppnishöllin í  Göppingen rúmar  5.600 manns. Í stórleikjum leikur liðið stundum heimaleiki sína í Porsche Arena í Stuttgart.  Markus Baur tók við liðinu þegar Hartmut Mayerhoffer var rekinn í nóvember.
Níu Íslendingar hafa leikið með Göppingen. Geir Hallsteinsson reið á vaðið 1973. Á eftir honum komu Gunnar Einarsson, Ólafur Einarsson, Þorbergur Aðalsteinsson, Ágúst Svavarsson, Rúnar Sigtryggsson, Jaliesky Garcia, Gunnar Steinn Jónsson og síðast Janus Daði Smárason sem fór frá félaginu á síðasta sumri eftir tveggja ára veru.

Feðgarnir fylgjast vel með

„Það verður ekki boði hjá okkur að gera mörg mistök eða að vera ekki vel einbeittir. Ef okkur tekst að leika okkar leik á þeim hraða sem við viljum þá held ég að við eigum möguleika á að vinna,“ sagði Arnór Snær sem hefur séð marga leiki með Göppingen upp á síðkastið ásamt bróður sínum Benedikt Gunnari og föðurnum, Óskari Bjarna.

„Við höfum stundum verið allir þrír að horfa hver á sinn leikinn í tölvunni og bent hver öðrum á eitt og annað í leik Göppingenliðsins,“ sagði Arnór Snær léttur í bragði en hann hefur átt einstaklega gott leiktímabil með Valsliðinu.


„Þótt ekki hafi gengið vel hjá Göppingen í þýsku deildinni þá hefur það á sama tíma náð frábærum árangri í Evrópudeildinni. Göppingen fór áfram í 16-liða úrslit með jafn mörg stig og Montpellier sem vann riðilinn. Ég er bara spenntur fyrir að mæta til leiks,“ sagði Arnór Snær Óskarsson fullur sjálfstrausts fyrir leikinn í kvöld.

Leikur Vals og Frisch Auf! Göppingen hefst klukkan 19.45 í Origohöllinni. Síðasta þegar spurðist voru enn til örfáir aðgöngumiðar hjá Tix.is.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -