- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ekki ljóst hvaða áhrif fjarvera Ómars Inga hefur

- Auglýsing -


„Það kostaði frekar vangaveltur en hausverk áður en hópurinn var valinn. Ég hef fyrir nokkru mótað skýran grunn að hóp og er farinn að hugsa aðeins lengra og dýpra en að lokahóp fyrir HM. Það er gott samt að vera kominn á þann stað að koma hópnum frá sér,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla í handknattleik í samtali við handbolta.is í dag eftir að hann valdi þá 18 leikmenn sem teflt verður fram á heimsmeistaramótinu í handknattleik sem fram fer í næsta mánuði.


Sjá einnig: Þrír HM-nýliðar í hópnum sem Snorri Steinn valdi

Stærsta nafnið sem er ekki í hópnum er Ómar Ingi Magnússon sem er meiddur og verður ekki með á heimsmeistaramótinu. Framvinda batans ræður því hvenær Ómar Ingi leikur næst handknattleik auk þess sem félagslið hans, SC Magdeburg stjórnar ferðinni, ekki HSÍ. Teitur Örn Einarsson var valinn í stað Ómars Inga.

Ekki ljóst fyrr en á hólminn verður komið

Spurður hverju fjarvera Ómars Inga breyti fyrir landsliðið segir Snorri Steinn það ekki vera ljóst. Þeirri spurningu verði ekki svarað til hlítar fyrr en á hólminn verður komið.

„Ómar Ingi hefur mikið leikið með landsliðinu undir minni stjórn, sem er eðlilegt. Hann er frábær handknattleiksmaður. Leikstíll landsliðsins hefur meðal annars tekið mið af hans kostum,“ segir Snorri Steinn og bætir við að meiri ábyrgð verði sett á herðar Viggós Kristjánssonar í fjarveru Ómars Inga.

Viggó hefur verið frábær

„Viggó hefur verið frábær á tímabilinu og undir minni stjórn með landsliðinu. Hann mun þar af leiðandi ganga inn í sitt hlutverk.“

Engin áhætta tekin

„Við verðum að þreifa okkur áfram með Teit Örn. Ég er spenntur að vinna með honum í fyrsta sinn. Ég hef tvisvar ætlað að hafa Teit í hóp en hann þurfti í bæði skiptin að draga sig út vegna meiðsla. Ég tel mig ekki taka áhættu með valinu á honum. Teitur Örn hefur vissa eiginleika sem við erum að leita eftir. Hann er góður skotmaður, getur staðið vörnina og er fljótur. Þar af leiðandi tel ég að Teitur falli vel inn í hópinn,“ segir Snorri Steinn og bætir við að einna lengstur tími hjá sér hafi farið í vangaveltur um það hver ætti að koma í stað Ómars Inga. Þar á meðal er Kristján Örn Kristjánsson, Donni, leikmaður Skanderborg AGF í Danmörku.


„Þegar upp var staðið þá sagði mér einhver tilfinning að velja Teit Örn og ég ákvað að fara eftir henni.“

Sveinn var ekki valinn

Sveinn Jóhannsson var í landsliðhópnum í leikjunum gegn Bosníu og Georgíu í undankeppni EM snemma í nóvember en hlaut ekki náð fyrir augum landsliðsþjálfarans að þessu sinni. Að sama skapi bætist Sigvaldi Björn Guðjónsson við núna en hann var meiddur þegar áðurnefndir leikir fóru fram.

Ekki óánægður með Svein

„Ég var alls ekki óánægður með Svein í síðasta verkefni. Hann var öflugur á æfingum en fékk ef til vill ekki mörg tækifæri í leikjunum. Ég valdi Arnar Freyr Arnarsson frekar að þessu sinni því mér fannst hann að einhverju leyti nýta vel sitt tækifæri í leikjunum við Georgíu þótt ég hefði viljað fá meira frá honum sóknarlega.“

Ákveðið öryggi fyrir þjálfarann

„Ég fer ekkert ofan af því að Arnar Freyr á að geta verið okkar sterkasti sóknarlínumaður. Hann og við eigum eftir að kalla það betur fram. Auk þess er ákveðið öryggi í því fyrir mig sem þjálfara að Arnar Freyr og Elvar Örn geta leikið hlið við hlið í þristastöðunni í vörninni. Þeir hafa leikið saman hjá Melsungen og þekkjast mjög vel,“ segir Snorri Steinn.

Orri Freyr hefur nýtt sín tækifæri

Spurður um samkeppnina sem einnig ríki í vinstra horni segir Snorri Steinn ljóst að Orri Freyr Þorkelsson hafi svo sannarlega gripið gæsina þegar hún gafst í vor þegar Stiven Tobar Valencia var meiddur. Einnig hefur Bjarki Már Elísson leikið vel með félagsliði sínu upp á síðkastið auk þess að hafa yfir að ráða reynslu sem nauðsynleg er á stórmóti.

Lengra viðtal við Snorra Stein er að finna í myndskeiði inni í þessari frétt.

Flökt er á birtunni í myndskeiðinu sem vegna bilunar í peru í loftljósi í húsnæði Arionbanka þar sem viðtalið við tekið upp á blaðamannfundi HSÍ í húsnæði bankans í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -