Fátt var um varnir í dag þegar Sigvaldi Björn Guðjónsson og félagar í pólska meistaraliðinu Vive Kielce heimsóttu Zaglebie Lubin í fimmtu umferð pólsku úrvalsdeildarinnar. Varnarleikurinn sat alveg á hakanum hjá leikmönnum beggja liða sem nutu lífsins við að skora 75 mörk á þeim 60 mínútum sem leikurinn stóð yfir.
Sigvaldi og félagar unnu viðureignina, 43:32, eftir að hafa verið fimm mörkum yfir þegar leikurinn var hálfnaður, 23:18.
Sigvaldi Björn skoraði sex mörk og var með fullkomna skotnýtingu. Samherji hans, Arkadiusz Moryto, skoraði níu mörk og Alex Dujshebaev skoraði einnig sex sinnum.
Ivan Karacic sem fór hamförum í leik gegn PSG í Meistaradeildinni í vikunni þegar hann skoraði 13 mörk í 15 skotum fékk frí frá leiknum í dag.
Kielce er með fullt hús, 15 stig, eftir fimm leiki en gefin eru þrjú stig fyrir sigur í pólsku úrvalsdeildinni. Azoty-Pulawy er í öðru sæti, hefur einnig unnið alla leiki sína fram til þessa en þeir eru fjórir.