Elín Jóna Þorsteinsdóttir markvörður íslenska landsliðsins og danska úrvalsdeildarliðsins Ringkøbing Håndbold hefur ákveðið að breyta til í sumar og leika með öðru liði á næsta keppnistímabili. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins í morgun. Í henni segir að félagið hafi gjarnan viljað halda Elínu Jónu.
Elín Jóna, sem leikið hefur 41 landsleik, gekk til liðs við Ringkøbing Håndbold fyrir tveimur árum um leið og liðið endurheimti sæti sitt í dönsku úrvalsdeildinni eftir veru í næst efstu deild. Ringkøbing Håndbold situr í 10. sæti af 14 liðum deildarinnar með 15 stig þegar þrjár umferðir eru eftir.
Elín Jóna hefur leikið afar vel í fyrir Ringkøbing Håndbold eftir að hún kom til baka í nóvember eftir erfið meiðsli á mjöðm sem hún varð fyrir í landsleik í vor sem leið. M.a. var Elín Jóna valin í lið umferðarinnar fyrir skömmu. Hún er með 31,1% hlutfallsmarkvörslu í leikjum tímabilsins.
Áður en Elín Jóna gekk til liðs Ringkøbing Håndbold var hún í þrjú ár markvörður Vendsyssel. Hún lék með Haukum og Gróttu hér heima.
Lofsamlegum orðum er farið um Elínu Jónu á heimasíðu Ringkøbing Håndbold.