Elín Jóna Þorsteinsdóttir landsliðsmarkvörður og samherjar hennar í EH Aalborg tryggðu sér í kvöld sæti í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik á næstu leiktíð með þriggja marka sigri á Ejstrup-Hærvejen, 23:20, á útivelli í 19. umferð 1. deildar. EH Aalborg hefur þar með unnið 18 af 19 leikjum sínum í deildinni á leiktíðinni. Þrjár umferðir eru eftir en ekkert liðanna sem er á eftir EH Aalborg getur lagt stein í götu liðsins á lokasprettinum. Slíkir eru yfirburðirnir.
EH Alaborg féll úr úrvalsdeildinni vorið 2020 eftir að keppni var hætt vegna covid. Síðan hefur EH Aalborg gert hverja atlöguna á fætur annarri á síðustu árum til að endurheimta sæti sitt. M.a. hefur liðið tvisvar tekið þátt í umspili um sæti í úrvalsdeildinni, síðast fyrir ári, en ekki haft erindi sem erfiði.
Elín Jóna gekk til liðs við EH Aalborg á síðasta sumri og hefur farið á kostum í vetur. Frammistaða Elínar Jóna hefur átt stóran þátt í frábæru gengi liðsins sem nú fagnar langþráðu sæti í deild þeirra bestu á næsta keppnistímabili.