Markahæsta kona sænsku úrvalsdeildarinnar, Elín Klara Þorkelsdóttir, hélt uppteknum hætti í kvöld og var markahæst hjá IK Sävehof þegar liðið vann HK Aranäs, 26:24, í bænum Kungsbacka í 12. umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í kvöld. Elín Klara skoraði sjö mörk í 11 skotum. Þar af skoraði hún tvö mörk úr vítaköstum. Einnig gaf Elín Klara fjórar stoðsendingar.
Síðasta markið sem Elín Klara skoraði í leiknum innsiglaði sigurinn en óhætt er að segja að sigurinn hafi verið harðsóttur fyrir toppliðið. Leikmenn HK Aranäs voru harðir í horn að taka.
IK Sävehof hefur 22 stig að loknum 12 leikjum í efsta sæti. Önnereds er skammt á eftir en hefur að vísu leikið einum leik fleira.
Lena Margrét Valdimarsdóttir skoraði tvö mörk úr tveimur skotum og gaf eina stoðsendingu í naumu tapi meistaraliðs síðustu leiktíðar, Skara HF, í heimsókn til Boden, 23:22.
Skara HF er í fimmta sæti með 16 stig eftir 12 leiki, er sex stigum á eftir IK Sävehof.
Staðan:





