Landsliðskonan Elín Klara Þorkelsdóttir lék á als oddi í gærkvöld með IK Sävehof þegar liðið hóf keppni á ný í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik að loknu hléi vegna heimsmeistaramótsins. Elín Klara skoraði 10 mörk í 12 skotum í öruggum sigri IK Sävehof á Skövde HF, 34:25, þegar leikið var í Skövde.
Þrjú marka sinna skoraði Elín Klara úr vítaköstum og var með fullkomna nýtingu. Samkvæmt einkunnagjöf var hún besti leikmaður vallarins að þessu sinni.
Yfirburðir IK Sävehof voru miklir í leiknum og m.a. var staðan 17:8, þegar fyrri hálfleikur var að baki.
IK Sävehof er efst í úrvalsdeildinni með 16 stig eftir níu umferðir. Önnereds og Skara HF eru næst á eftir með 14 stig.
Arnar og félagar unnu meistarana
Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði sex mörk úr tíu skotum í góðum sigri Amo HK á Ystads, meisturum síðasta keppnistímabils, 32:30, í gærkvöld í úrvalsdeild karla. Leikið var í Ystad.
Amo HK er í 10. sæti af 14 liðum deildarinnar með 14 stig eftir 16 leiki. Ystad-liðið hefur ekki náð sér á flug það sem af er leiktíð og situr í sjötta sæti eftir að hafa borið höfuð og herðar yfir önnur lið á síðasta tímabili.



