Elín Klara Þorkelsdóttir og samherjar í sænska liðinu IK Sävehof tryggðu sér sæti í annarri umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í handknattleik í dag með því að leggja Benfica, 29:27, í síðari viðureign liðanna í Lissabon. Sävehof vann einnig fyrri leikinn, 25:24, á heimavelli fyrir viku. Danska úrvalsdeildarliðið Viborg verður andstæðingur Sävehof í síðari umferð forkeppninnar í fyrri hluta nóvember.
Elín Klara var markahæst hjá Sävehof í leiknum í dag með sjö mörk en hún hefur farið frábærlega af stað með liðinu, bæði í deildinni í Svíþjóð og í Evrópukeppninni.
Jafnaldra Elínar Klöru, Constança Ramos Sequeira, var markahæst hjá Benfica með 11 mörk en þær mætast þegar landslið Íslands og Portúgal mætast í undankeppni EM í Porto sunnudaginn 19. október.