Landsliðskonan í handknattleik, Elín Klara Þorkelsdóttir, rakar til sín viðurkenningum þessa dagana fyrir árangur sinn á handknattleiksvellinum. Á gamlársdag var hún kjörin íþróttakona Hauka þriðja árið í röð. Nokkrum dögum áður hafði Elínu Klöru hlotnast nafnbótin íþróttakona Hafnarfjarðar, annað sinn í röð.
Elín Klara er og hefur verið burðarás kvennaliðs Hauka í handknattleik undanfarin ár þrátt fyrir ungan aldur. Haukar léku til úrslita á Íslandsmótinu í vor, Elín Klara var markahæsti leikmaður Olísdeildar og valin besti leikmaður deildarinnar annað árið í röð.
Elín Klara tók einnig þátt í öllum A-landsleikjum ársins og var m.a. leikmaður landsliðsins á Evrópumótinu í lok nóvember og í byrjun desember. Hún var næst markahæst í liðinu með 11 mörk í þremur leikjum.
Alls hefur Elín Klara leikið 21 A-landsleik og skorað í þeim 66 mörk.