Elísa Elíasdóttir fékk þungt högg á höfuðið eftir sjö mínútur af síðari hálfleik í viðureign Íslands og Ungverjalands á heimsmeistaramóti 20 ára landsliða kvenna í handknattleik í kvöld eftir að hún átti í viðskiptum við leikmann ungverska liðsins þar sem Elísa stóð í vörninni. Því miður þá fór atvikið framhjá dómurum leiksins og ungverski leikmaðurinn sem átti í hlut var ekki gerð refsing.
Uppfært að morgni 28. júní: Eftir ítarlega skoðun virðist allt benda til þess að Elísa hafi ekki hlotið heilahristing.
Ljóst var að um alvarlegt atvik var að ræða því fljótlega eftir að Þorvaldur Skúli Pálsson sjúkraþjálfari íslenska landsliðsins kom Elísu til aðstoðar var beðið um að fá sjúkrabörur. Elísa var færð af leikvelli í börum og undir hendur læknis til skoðunar. Fylgdi Halldóra Ingvarsdóttir fararstjóri landsliðsins Elísu eftir.
Handbolta.is var ekki ljóst í kvöld hver líðan Elísu er en sennilegt er talið að hún hafi fengið heilahristing. Elísa fékk þungt högg á höfuðið í kappleik með ÍBV fyrir nærri tveimur árum og var lengi frá keppni af þeim sökum. Það er því ljóst að hún er enn viðkvæmari fyrir vikið.
Foreldrar Elísu, Ingibjörg Jónsdóttir og Elías Árni Jónsson, eru sem betur fer í Skopje til þess að vera dóttur sinni til halds og trausts.