Framliðið vann afar öruggan sigur á Aftureldingu, 31:20, í 19. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik að Varmá í dag og hefur þar með áfram augastað á öðru sæti deildarinnar í keppni sinni við Hauka. Aðeins var fimm marka munur að loknum fyrri hálfleik, 15:10, Fram í vil. Framarar tóku jafnt og þétt völdin í síðari hálfleik og hafði gert endanlega út um leikinn talsvert áður en leiktíminn var úti.
Aftureldingarliðið, sem vann ÍBV í Eyjum fyrir viku, hélt í við Framara fyrsta stundarfjórðung leiksins í dag. Eftir það náði Framliðið betri tökum á varnarleik sínum auk þess sem Andrea Gunnlaugsdóttir markvörður varði afar vel. Í framhaldinu fékk Fram mörg hraðaupphlaup og mörk sem drógu máttinn úr liði Mosfellinga.
Aftureldingarliðið gerði of mörg mistök í sóknarleiknum til þess að eiga möguleika á að halda í við Fram að þessu sinni. Ljóst að framtíð Aftureldingar í Olísdeildinni mun ráðast af næstu viðureign liðsins, gegn KA/Þór í KA-heimilinu eftir þrjár vikur í næst síðustu umferð. Sama má reyndar segja um KA/Þórsliðsins sem stendur hallari fæti.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk Aftureldingar: Hildur Lilja Jónsdóttir 5, Stefanía Ósk Engilbertsdóttir 5, Ragnhildur Hjartardóttir 3, Susan Ines Gamboa 2, Anna Katrín Bjarkadóttir 2, Sylvía Björt Blöndal 2, Katrín Erla Kjartansdóttir 1.
Varin skot: Saga Sif Gísladóttir 2/1, 7,1% – Rebecca Fredrika Adolfsson 0.
Mörk Fram: Alfa Brá Hagalín 6, Kristrún Steinþórsdóttir 6, Harpa María Friðgeirsdóttir 4, Berglind Þorsteinsdóttir 3/3, Elna Ólöf Guðjónsdóttir 3, Steinunn Björnsdóttir 3, Lena Margrét Valdimarsdóttir 2, Þórey Rósa Stefánsdóttir 2, Erna Guðlaug Gunnarsdóttir 1, Íris Anna Gísladóttir 1.
Varin skot: Andrea Gunnlaugsdóttir 18, 50% – Ingunn María Brynjarsdóttir 1, 33,3%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.