Í annað sinn á þremur dögum hafði Valur betur í viðureign við ÍBV í Vestmannaeyjum í dag, 32:21. Að þessu sinni var leikur liðanna liður í Olísdeild kvenna en fyrri viðureignin, á fimmtudagskvöld á sama stað, var í átta liða úrslitum Poweradebikarsins.
Valsliðið hafði mikla yfirburði í leiknum í dag, sem hófst klukkan 11.30. Ungt lið ÍBV átti á brattann að sækja frá upphafi og var níu mörkum undir í hálfleik, 18:9. Framan af síðari hálfleik lék Valsliðið áfram af fullum krafti og þegar 17 mínútur voru til leiksloka var forskot Íslandsmeistarana orðið 13 mörk, 24:11.
Valur hefur áfram yfirburða forystu í Olísdeildinni. Liðið hefur 28 stig eftir 15 leiki og er sex stigum á undan Haukum og Fram sem eiga leik til góða á Val. ÍBV er næst neðst með sex stig.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk ÍBV: Britney Emilie Florianne Cots 7, Sunna Jónsdóttir 3, Ásta Björt Júlíusdóttir 2, Ásdís Halla Hjarðar 2, Yllka Shatri 2, Birna Berg Haraldsdóttir 2, Agnes Lilja Styrmisdóttir 1, Alexandra Ósk Viktorsdóttir 1, Klara Káradóttir 1.
Varin skot: Ólöf Maren Bjarnadóttir 8/1, 26,7% – Bernódía Sif Sigurðardóttir 2.
Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 8/4, Hildur Björnsdóttir 6, Lilja Ágústsdóttir 4, Lovísa Thompson 3, Thea Imani Sturludóttir 2, Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 2, Elísa Elíasdóttir 2, Hildigunnur Einarsdóttir 2, Elín Rósa Magnúsdóttir 1, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 1, Guðrún Hekla Traustadóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 15, 51,7% – Silja Müller 2, 22,2%.