„Annað hvort eru leikir Vals og Fram jafnir eða þá að við lendum í eltingaleik við Framliðið. Þannig finnst mér leikir okkar og Fram hafa verið síðustu ár,“ sagði Lovísa Thompson, landsliðskona og leikmaður Vals, þegar handbolti.is hitti hana í vikunni og bað hana um að rýna í væntanlegan undanúrslitaleik Fram og Vals í Coca Cola-bikarkeppni kvenna sem fram fer annað kvöld Schenkerhöllinni á Ásvöllum. Flautað verður til leiks klukkan 18.
Lovísa var með í síðasta úrslitaleik þessara liði í byrjun mars 2020. Fram hafði þá betur, 23:17, eftir að hafa verið yfir frá upphafi til enda. „Það liggur í okkar höndum. Spurningin er sú hvort við getum hlaupið með Framliðinu í sextíu mínútur. Við verðum að vera rétt innstilltar,“ sagði Lovísa og bætir við að Valsliðið verði að gefa sér tíma í hverja sókn.
„Ekki grípa fyrsta tækifærið sem gefst. Leyfa leiknum aðeins að koma til okkar í stað þess að láta þröngva okkur í aðgerðir sem kosta okkur að Framliðið fær hvert hraðaupphlaupið á fætur öðru,“ sagði Lovísa.
Benda má á vel útfærða leiki Valsliðsins gegn Fram í undanúrslitaleikjum Olísdeildarinnar í vor.
Lovísa segir að nokkur haustbragur hafi verið á leikjum Olísdeildarinnar í tveimur fyrstu umferðunum. Það sé samt ekki viðunandi að sínu mati.
Valur hefur leikið 26 skipti í undanúrslitum bikarkeppninnar í kvennaflokki, Coca Cola-bikarnum. Fyrsti undanúrslitaleikur félagsins var 1977, árið eftir að keppninni var komið á fót. Valur lék þá við KR í undanúrslitum og tapaði, 13:12. Síðast lék Valsliðið í undanúrslitum bikarkeppninnar árið 2020 gegn Fram og tapaði, 23:17.
„Þótt nokkur ný andlit séu til að mynda í hópnum hjá okkur þá er verulegur hluti hópsins sá sami og á síðasta keppnistímabili. Það er því engin afsökun að mínu mati að það hafi verið haustbragur á leik okkar. Einbeiting og gæði skipta öllum máli, ekki hvað síst ef maður ætlar sé eitthvað á móti Fram,“ sagði Lovísa Thompson, leikmaður Vals í samtali við handbolta.is.
Leikur Fram og Vals í undanúrslitum Coca Cola-bikars kvenna hefst klukkan 18.00 á morgun fimmtudag. Leikið verður í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í Hafnarfirð. Sigurliðið leikur til úrslita við KA/Þór eða FH á laugardaginn kl. 13.30. Miðasala á alla leikina í Coca Cola-bikarnum fer fram í gegnum appið Stubbur.