Elvar Ásgeirsson fór á kostum í liði Ribe-Esbjerg sem rúllaði yfir TMS Ringsted, 38-27, í 14. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik karla í dag. Elvar var allt í öllu í sóknarleik sinna manna, skoraði 6 mörk úr 6 skotum og lagði að auki upp 9 mörk. Þá lék hann einnig vel í miðju varnarinnar en staðan að loknum fyrri hálfleik var 19-11, Ribe-Esbjerg í vil.
Sterk innkoma í markið
Ágúst Elí Björgvinsson fékk að spreyta sig í marki Ribe-Esbjerg, lék síðustu 10 mínútur fyrri hálfleiks og allan seinni hálfleikinn. Alls varði Ágúst 6 skot og tókst að skora eitt mark. Markahæstur hjá Ribe-Esbjerg var William Aar með 10 mörk.
Þetta er annar leikurinn í röð þar sem Elvar skilar stórgóðri frammistöðu en í síðustu umferð skoraði hann sjö mörk í átta skotum og átti þrjár stoðsendingar gegn Danmerkurmeisturum GOG. Jafnframt var Elvar valinn í lið umferðarinnar fyrir sína frammistöðu þar.
Með sigrinum færðist Ribe-Esbjerg upp í 3. sæti deildarinnar í 18 stig jafnt Mors, sem er í 4. sæti en á þó leik til góða. Aalborg er efst með 27 stig og Fredericia situr í öðru sæti með 21 stig.
Stöðuna í dönsku úrvalsdeildinni og í fleiri deildum í evrópskum handknattleik er að finna hér.