MT Melsugen vann meistara SC Magdeburg með átta marka mun á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik í kvöld, 31:23, og tók þar með afgerandi forystu í deildinni. Arnar Freyr Arnarsson og Elvar Örn Jónsson komu mikið við sögu í leiknum í liði Melsungen sem var með tögl og hagldir í leiknum sem fram fór í Kassel. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 15:12, Melsungen í vil.
Þetta var annað tap Magdeburg í deildinni á leiktíðinni.
Elvar Örn og Arnar Freyr skoruðu þrjú mörk hvor fyrir Melsungen auk þess sem sá fyrrnefndi átti þrjár stoðsendingar og var svo atkvæðamikill í vörninni að ekki var hjá því komist að víkja honum tvisvar af leikvelli í tvær mínútur í hvort skipti. Lettinn Dainis Kristopans var markahæstur með sjö mörk.
Ómar Ingi Magnússon var markahæstur hjá SC Magdeburg með níu mörk, þar af fjögur úr vítaköstum. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði ekki mark en átti eina stoðsendingu.
Hannover-Burgdorf, þar sem Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari, gerði jafntefli við Bietigheim, 28:28, á útivelli. Þar með er tveggja stiga munur á Melsungen í efsta sæti og Hannover-Burgdorf í því öðru.
Lemgo-liðið hefur jafnað sig eftir tap í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar í vikunni. Lemgo vann Eisenach á heimavelli, 31:28.
Stöðuna í þýsku 1. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.