- Auglýsing -
- Auglýsing -

Elvar Örn er hundrað prósent klár í EM-slaginn

Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari t.v. og Arnór Atlason aðstoðarþjálfari fyrir æfingu landsliðsins í Safamýri í morgun. Það var síðasta æfing landsliðsins áður en farið verður til Austurríkis í fyrramálið. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Vangavelturnar hjá mér áður en ég valdi 18 manna hópinn fyrir EM snerust um það hvort ég vildi vera með meiri breidd hægra megin og taka Donna [Kristján Örn Kristjánsson] með eða ekki. Hann hefur aðra kosti en hinir tveir í þessari stöð [Ómar Ingi og Viggó]. Ég tel mig vera með góða breidd vinstra megin eftir að ljóst er að Elvar Örn er klár í slaginn með okkur. Hann er hundrað prósent klár,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla í handknattleik í samtali við handbolta.is fyrir hádegið eftir að hann valdi 18 leikmenn til þess að taka þátt í Evrópumeistaramótinu í handknattleik sem hefst í næstu viku.


Andri Már og Þorsteinn verða eftir heima – EM-hópurinn tilkynntur

Snorri Steinn skildi eftir tvo leikmenn út 20 manna hópnum sem æft hefur saman frá 27. desember. Það varð hlutskipti Andra Más Rúnarssonar og Þorsteins Leós Gunnarssonar að sitja eftir þegar íslenska landsliðið fer til Austurríkis í fyrramálið til tveggja vináttuleikja sem háðir verða á laugardaginn og mánudaginn við austurríska landsliðið. Frá Austurríki heldur íslenska landsliðið til München miðvikudaginn 10. janúar, tveimur dögum fyrir fyrsta leik á EM.

Einar Þorsteinn Ólafsson og Stiven Tobar Valencia taka þátt í EM í fyrsta skipti. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Tveir nýliðar

Einar Þorsteinn Ólafsson og Stiven Tobar Valencia eru þeir leikmenn hópsins sem hafa ekki áður tekið þátt í stórmóti A-landsliða.

Ákveðnir eiginleikar

„Einar Þorsteinn hefur ákveðna eiginleika sem aðrir hafa ekki. Það gefur okkur möguleika á að brjóta upp leikina ef á þarf að halda,“ sagði Snorri Steinn ennfremur.

Er hundrað prósent klár

Mjög mikilvægt er að ekkert er lengur til fyrirstöðu að Elvar Örn Jónsson hefur jafnað sig af tognun á magavöðva sem hann varð fyrir í kappleik síðla í nóvember.

Elvar Örn Jónsson t.v. á æfingu landsliðsins í Safamýri í morgun. Óðinn Þór Ríkharðsson t.h. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

„Elvar Örn lætur mjög vel af sér. Á honum er ekki að sjá að hann hafi verið lengi frá keppni. Elvar Örn er hundrað prósent klár sem að sjálfsögðu hafði mikið að segja þegar ég gerði upp hug minn varðandi hvaða 18 leikmenn sem ég valdi. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það hversu ánægjulegt það er að Elvar er klár í slaginn með okkur,“ sagði Snorri Steinn sem reiknar með að tefla Elvari Erni fram í vináttuleikjunum tveimur gegn Austurríki eins og öðrum þeim sem í hópnum eru.

EM í handknattleik karla hefst 10.janúar í Düsseldorf í Þýskalandi og stendur til 28.janúar. 
Leikir Íslands í C-riðli EM í München:
12.jan.: Ísland – Serbía, kl. 17.
14.jan.: Ísland – Svartfj. land, kl. 17.
16.jan.: Ísland – Ungv.land, kl. 19.30.
Vináttuleikirnir við Austurríki fara fram á laugardaginn og á mánudaginn í Vínarborg og Linz. Báðir leikir hefjast klukkan 17.10 og verða sendir út á RÚV.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -