- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Elvar Örn hitti vafalaust á óskastund í Kiel

Elvar Örn Jónsson handknattleiksmaður hjá MT Melsungen. Mynd/Melsungen.
- Auglýsing -

Selfyssingurinn Elvar Örn Jónsson hefur vafalitið hitt á óskastund í dag þegar hann leiddi MT Melsungen til sigurs á meisturum THW Kiel í Wunderino Arena í Kiel að viðstöddum rúmlega 10 þúsund áhorfendum. Lokatölur, 35:30, fyrir Melsungen en leikurinn var í fjórðu umferð þýsku 1. deildarinnar í handknattleik.

Elvar Örn var markahæsti leikmaður vallarins og sá besti í þessum glæsilega sigri Melsungen sem er í efsta sæti deildarinnar með átta stig eftir fjóra leiki. Kiel hefur tapað tveimur af fjórum leikjum sínum til þessa sem er harla óvenjulegt.

Arnar Freyr líka öflugur

Elvar Örn skorað níu mörk, átti eina stoðsendingu og var einu sinni vikið af leikvelli. Hann lét svo sannarlega að sér kveða á báðum vallarhelmingum. Arnar Freyr Arnarsson dró hvergi af sér og skoraði þrjú mörk af línunni fyrir Melsungen. Hann varði einnig tvö skot í vörninni.

Ivan Martinovic skoraði átta mörk fyrir Melsungen og var næstur á eftir Selfyssingnum sterka. Nikola Bilyk skoraði sjö mörk og lét mest að sér kveða við markaskorun í liði meistaranna.

Ómar Ingi í stuði

Ómar Ingi Magnússon skoraði átta mörk, þar af sjö úr vítaköstum, þegar SC Magdeburg vann HSV Hamburg með 11 marka mun á heimavelli, 35:24. Ómar Ingi gaf fimm stoðsendingur. Janus Daði Smárason tók út leikbann í dag eftir að hafa fengið bæði rautt og blátt spjald í leik við Füchse Berlin á miðvikudagskvöld.

Sigurgleði í Leipzig

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Leipzig, fagnaði sínum fyrsta sigri á leiktíðinni á heimavelli í dag þegar leikmenn Wetzlar lágu í valnum að loknum 60 mínútna leik, 36:30. Viggó Kristjánsson skoraði eitt mark og átti eina stoðsendingu fyrir Leipzig. Sömu sögu er að segja af Andra Má Rúnarssyni. Franz Semper skoraði sjö mörk og hleypti Viggó lítt að. Moritz Preuss skoraði einnig sjö mörk fyrir Leipzig.

Ýmir Örn Gíslason skoraði tvö mörk fyrir Rhein-Neckar Löwen í fimm marka tapi liðsins í heimsókn til Hannover-Burgdorf, 34:29. Heiðmar Felixson er sem fyrr aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf sem hefur sjö stig eftir fjóra leiki. Aðeins Melsungen og Füchse Berlin hafa tapað færri stigum til þessa.

Arnór Snær Óskarsson skoraði ekki mark fyrir Rhein-Neckar Löwen.

Fleiri úrslit í dag:
Bergischer HC – Füchse Berlin 30:34 (12:17).
Arnór Þór Gunnarsson er aðstoðarþjálfari Bergischer HC.

Stuttgart – Eisenach 28:22 (13:11).

Standings provided by Sofascore
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -