Elvar Örn Jónsson og félagar í MT Melsungen er áfram í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar í handknattleik. Þeir unnu Stuttgart í gærkvöld á heimavelli í gær, 35:29, og hafa 34 stig eftir 20 leiki. Hannover-Burgdorf fylgir fast á eftir með 32 stig. Hannover-Burgdorf, með Heiðmar Felixson sem aðstoðarþjálfara, vann HSG Wetzlar á heimavelli í gærkvöld, 34:32.
Elvar Örn skoraði fimm mörk og gaf fimm stoðsendingar í sigurleik Melsungen. Rogerio Moraes Ferreira var markahæstur með sjö mörk. Daninn Aaron Mensing skoraði sex mörk. Arnar Freyr Arnarsson er ennþá úr leik vegna meiðsla. Hann hefur verið í endurhæfingu hér á landi, eftir því sem næsta verður komist. Arnar Freyr tognaði á læri í landsleik rétt áður en HM hófst í janúar.
Elliði Snær Viðarsson fór á kostum með Gummersbach í sigurleik á Rhein-Neckar Löwen á heimavelli, 36:25. Eyjamaðurinn skoraði átta mörk úr átta skotum og lék á als oddi.
Miro Schluroff skoraði 10 mörk og var markahæstur leikmanna Gummersbach. Guðjón Valur Sigurðsson stýrði Gummersbach að vanda. Liðið situr í 9. sæti með 20 stig.
Viktor Petersen Norberg skoraði eitt mark fyrir HSG Wetzlar í tapleiknum fyrir Hannover-Burgdorf. Wetzlar er í 12. sæti með 16 stig eftir 20 leiki en 18 lið eru í deildinni.
Staðan í þýsku 1. deildinni í karlaflokki: