Elvar Örn Jónsson skoraði markið sem tryggði MT Melsungen eins marks sigur á Gummersbach, 26:25, í þýsku 1. deildinni í handknattleik í kvöld þegar liðin mættust í Kassel. Með sigrinum jafnaði MT Melsungen metin við Füchse Berlin á toppi deildarinnar. Liðin hafa 42 stig hvort og eru þremur stigum á undan Hannover-Burgdorf sem er næst á eftir. Hannover-Burgdorf mætir Berlinarliðinu á morgun.
Elvar Örn skoraði alls fimm mörk í leiknum og gaf tvær stoðsendingar. Hann var markahæstur við fjórða mann.
Teitur Örn Einarsson skoraði tvö mörk fyrir Gummersbach og gaf tvær stoðsendingar. Elliði Snær Viðarsson er ennþá úr leik vegna meiðsla. Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach.
Gísli sprækur – Ómar rólegur
Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði þrjú mörk og gaf tvær stoðsendingar í þriggja marka sigri SC Magdeburg á Rhein-Neckar Löwen á heimavelli, 30:27. Ómar Ingi Magnússon kom lítið við sögu og skoraði ekki mark. Magdeburg nálgast óðum efstu liðin. Liðið er með 37 stig og á tvo leiki inni á toppliðin.
Ýmir Örn Gíslason og liðsfélagar í Göppingen töpuðu fyrir nýkrýndum bikarmeisturum THW Kiel, 36:29, á heimvelli. Göppingen er áfram í 14. sæti af 18 liðum með 17 stig. Ýmir Örn skoraði eitt mark og var einu sinni vikið af leikvelli.
Staðan í þýsku 1.deildinni: